138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held á ástæðunni í hendinni eftir ræðu hv. formanns fjárlaganefndar í gær þar sem hann viðurkennir að ríkisstjórnin, a.m.k. hann þó ekki séu fleiri í fjárlaganefnd, þingmaðurinn getur þá upplýst um það, vissi af því nóttina fyrir afgreiðsluna, aðfaranótt 28. ágúst sl. þar sem þingmenn voru leiddir til þess að greiða atkvæði um lögin að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á fyrirvarana. Hann svaraði mér því í andsvari í gær. Og þá getum við líka skoðað framhaldið í því að brotin ríkisstjórn fór af stað með ónýtan samning, enga samningsstöðu, með lögin sem átti alls ekki að hvika frá eins og hv. þm. Ólöf Nordal fór yfir í andsvari, og út af því varð að sjálfsögðu enginn árangur því að ríkisstjórnin vissi það samdægurs og lögin voru samþykkt á þingi að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á þetta.

Hér var sett af stað enn eitt sjónarspilið til að halda ríkisstjórninni saman, sjónarspilið til að halda þjóðinni saman í þeirri von að enginn mundi átta sig á þessu. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór undan í flæmingi í morgun þegar ég spurði hann út í þetta, fór að tala um að þetta væri einkapóstur, þetta væri ekki póstur frá íslensku stjórnsýslunni, þetta hefði verið vinur hans í útlöndum, ég hlusta ekki á svona rugl. Þvílíkur leyndarhjúpur sem búinn er að vera yfir þessu máli.

Formaður fjárlaganefndar vissi þetta að kvöldi eða aðfaranótt 28. ágúst að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á þetta, enda þegar maður skoðar ræðu hæstv. forsætisráðherra þann dag þegar hún talaði fyrir Icesave-samningunum, þá les maður ræðu konu í mikilli vörn sem vantar allt sjálfstraust fyrir því sem verið var að gera. En þau náðu þessu í gegn án þess að þing eða þjóð hefði hugmynd um að Bretar og Hollendingar væru búnir að hafna þessu.