138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir margt af því sem fram kom í ágætri ræðu hv. þm. Ólafar Nordal. Vegna þeirra skoðanaskipta sem þingmaðurinn og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir áttu um þau ummæli formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, um fyrirvarana, og það að hann hafi ekki haft trú á þessum fyrirvörum, þá finnst mér það einmitt lýsa þessu hörmulega máli afar vel að hér kemur formaður fjárlaganefndar — hann gerði það reyndar líka fyrr í umræðunum, hann gerði það, að mig minnir, í andsvari við þá sem hér stendur — og segir að hann hafi enga trú á þessum fyrirvara, það að láta Breta og Hollendinga kvitta upp á fyrirvarana, samþykkja þá áður en ríkisábyrgðin taki gildi, hann hafi enga trú á því. Þá segi ég: Það er það sem hefur verið athugavert við þetta mál frá því að við samþykktum fyrirvarana 28. ágúst að menn hafa ekki haft trú á verkefninu. Sannfæringu hefur skort hjá þessari blessaðri ríkisstjórn og þeim aðilum sem farið hafa með samninga fyrir hana, enginn hefur haft trú á verkefninu. Það er þess vegna sem ég hef ítrekað kallað eftir gögnum um það hvernig þetta fólk kynnti samningana, hvernig þetta fólk fór og kynnti fyrirvarana.

Þá hefur mér verið sagt: Það eru ekki til neinar fundargerðir. Við höfum átt fund eftir fund og það var samhljóða orðalag hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að málið hefði „borið á góma“ á ýmsum fundum. Þetta stóra mál hefur „borið á góma“. Af hverju var það ekki gert sem við lögðum til í sumar? Af hverju var ekki farið fylktu liði og fyrirvararnir kynntir Bretum og Hollendingum og sagt: Þetta er það sem íslenska þjóðin er tilbúin að gera til að leysa þetta erfiða mál? Þetta erum við tilbúin að gera. Það er sanngjarnt að byrðum sé dreift á milli allra hlutaðeigandi. Það er engin sanngirni fólgin í því að íslenska þjóðin ein eigi að bera byrðarnar af þessu bankahruni. Nei, það var ekki gert. Menn fóru af stað illa undirbúnir og sögðu: Afsakið að við skulum vera að ónáða. Hér erum við með ný lög frá Íslandi. Þingið tók fram fyrir hendurnar á okkur en ef við setjumst yfir þetta hljótum við að komast fram hjá því. Þannig er frumvarpið sem við ræðum í dag og það er sorglegt. Ég tek undir með hv. þm. Ólöfu Nordal að það er ömurlegt og sorglegt til þess að hugsa að greidd verði atkvæði um þetta stóra mál á morgun. Ég óttast að það verði samþykkt þó að ég skilji ekki hvernig menn geti fengið það af sér að samþykkja þetta mál.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þingmenn sem voru í vafa í sumar — þingmenn sem lögðu með okkur í stjórnarandstöðunni í þann leiðangur að smíða fyrirvarana, að koma málum þannig fyrir að byrðunum væri dreift — geti nú hugsað sér að greiða atkvæði með því máli sem nú liggur fyrir. Fyrirvararnir eru orðnir að engu. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem heldur því fram. Við höfum fengið álit eftir álit og nú síðast fengum við álit frá bresku lögfræðistofunni Mishcon de Reya sem er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og því samningaferli sem hún ber ábyrgð á. Þeir segja að þessir samningar séu hvorki skýrir né sanngjarnir og það er það sem við höfum líka verið að leggja áherslu á. Mér er því fyrirmunað að skilja hvernig þingmenn eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem börðust með okkur í sumar, og hv. þm. Atla Gíslason geta verið í vafa — ég nefni ekki hv. þm. Ögmund Jónasson og Lilju Mósesdóttur vegna þess að ég treysti því að þau haldi áfram á þeirri braut sem þau hafa þegar markað sér við 2. umr. Ég skil ekki að það geti verið einhver efi í hugum þeirra sem stóðu að smíði fyrirvaranna í sumar vegna þess að málið er komið nánast á þann stað sem það var á í sumar áður en okkur tókst að breyta því.

Hvað er það þá sem fær þetta fólk til að efast — nú eigum við eftir að sofa á þessu eina nótt og ég treysti því að þau sjái að sér, en ég óttast að það verði ekki þetta mál sem þau hugsa um þegar þau greiða atkvæði á morgun. Það er spurning hvort það eru ekki hótanir hæstv. forsætisráðherra um líftíma ríkisstjórnarinnar, um líf ríkisstjórnarinnar, sem vegi þyngst, að fyrsta hreina vinstri stjórnin verði þessu fólki á endanum mikilvægari en hagsmunir þjóðarinnar. Það er það sem ég óttast. Við þetta fólk vil ég segja: Ég hef enga löngun til að fella ríkisstjórnina út af þessu máli. Ég heiti á þetta fólk. Ef það kemur með okkur í þessa vegferð og greiðir atkvæði eins og það gerði í sumar — eins og það lagði á sig mikla vinnu — þá mun ég ekki hvetja ríkisstjórnina til að fara frá. Það er ekki stjórnarandstaðan sem hefur verið að hóta þessari ríkisstjórn, það er ríkisstjórnin sjálf. Ég hvet hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem hér stendur, til að ræða þetta mál innan sinna raða og taka ákvörðun um Icesave bara út frá Icesave, bara út frá hagsmunum þjóðarinnar. Ég veit að hún mun hugsa það vel. Hún er skynsöm kona og hún á lítið barn og hún ber hag þess fyrir brjósti og vill ekki leggja á það klyfjar sem það getur ekki staðið undir. Ég veit að þingmaðurinn hugsar þannig svo að ég hvet hana til að hugsa sinn gang.

Málið er þetta. Þrátt fyrir að við höfum rætt þetta í sex mánuði, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra segi að við í stjórnarandstöðunni höfum verið að þvælast fyrir þá er það einfaldlega þannig að þetta mál er ekki útrætt. Alltaf eru að koma fram nýjar og nýjar upplýsingar og málsmeðferðin sem hefur verið umrædd í ræðum þingmanna á undan mér, sú málsmeðferð að rífa málið út áður en náðst hefur að fara yfir öll þessi nýju mikilvægu gögn, hvort sem það er áhættugreiningin eða álit bresku lögfræðistofunnar sem ég nefndi áðan — það er ekki búið að fara yfir þetta þannig að enginn vafi leiki á að málið sé komið á þann stað að við komumst ekki lengra með það. Ég er ekki sannfærð um það og menn segja: Hvorki í áhættugreiningu IFS né í áliti Mishcon de Reya er áhættan af því að fella samninginn metin, það er alveg rétt. Það er enginn sem metur áhættuna af því að samningurinn verði felldur. En einmitt þess vegna eigum við ekki að samþykkja þetta mál núna heldur eigum við að láta færustu sérfræðinga meta hver áhættan og hverjar afleiðingarnar yrðu af því ef við segðum nei takk við frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Af hverju var ekki beðið um það? Jú, vegna þess að það lá svo mikið á að klára málið út af þrjósku í ríkisstjórninni, út af þrjósku í hæstv. fjármálaráðherra. Og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson getur hrist höfuðið allt hvað hann vill en hvað mundi gerast ef við tækjum tíma í að klára þetta og fá þessa áhættugreiningu? Það gerist ekki neitt og við vitum það, allan þann endalausa hræðsluáróður sem borinn hefur verið á borð fyrir okkur er búið að afhjúpa og það er búið að sýna það og sanna að ekkert er til í því að allt fari á hliðina nema við klárum Icesave í þessari mynd. Það er ekki heil brú í því, það hefur verið marghrakið og það er aumkunarvert að þurfa að hlusta á ísaldarspár stjórnarliða endalaust. Það er ekkert sem segir það, það hefur verið rakið hér og ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti athyglisverða ræðu áðan og sagði: Samningurinn er skýr. Hann er sá eini sem segir það fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra, fyrir utan það þegar hann boðaði glæsilegu niðurstöðuna, það mátti jafnvel skilja á þingmanninum að þetta væri bara nokkuð góður samningur. Hann sagði að han væri skýr. Við vitum um upphæð skuldbindingarinnar. Við vitum hversu mikið hvenær og hversu lengi við eigum að borga, sagði þingmaðurinn. Þetta þótti mörgum afar athyglisvert og þingmenn sem fóru í andsvar við hann, þeirra á meðal hv. þm Pétur H. Blöndal, spurðu þá: Hvað er skuldbindingin há? Hversu mikið eigum við að borga? Hvenær lýkur þessu? Þá sagði hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson þau fleygu orð að þetta væri mjög skýrt: Við greiðum þar til lánið er uppgreitt. Það er allur skýrleikinn í þessum samningi. En ég bendi á að Mishcon de Reya segir skýrt í áliti sínu að samningurinn sé hvorki skýr né sanngjarn. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að þingmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson sé ágætur þá leyfi ég mér að trúa frekar því sem þessi breska lögfræðistofa segir um þetta. Það hefur enginn trú á þessu verkefni og þetta er sorglegasta mál.

Ég hef kallað eftir gögnum en það hefur farið ákaflega í taugarnar á hæstv. fjármálaráðherra sem dæsir sýknt og heilagt í ræðustóli yfir því að alltaf sé verið að efast um allt sem hann gerir og hann skilji bara ekki af hverju. Hann skilur ekki af hverju menn efast um að hlutirnir hafi verið gerðir á einhvern ákveðinn hátt. Ég segi við hæstv. fjármálaráðherra: Við efumst um það vegna þess að við höfum alltaf þurft að kalla eftir öllum gögnum. Við höfum þurft að draga þau út með töngum. Nú síðast bíðum við enn. Um það hefur verið samið að greiða eigi atkvæði um þetta mál á morgun og klukkan er að verða 3, og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur ekki enn fengið þau gögn sem hann bað um, á fundi fjárlaganefndar fyrir jól, að fá afhent milli jóla og nýárs. Þessi gögn eru ekki enn þá komin. Af hverju skyldum við tortryggja hæstv. fjármálaráðherra? Ég spyr. Ég hef spurt um hvernig kynningu ríkisstjórnarinnar á fyrirvörunum hefur verið háttað. Þá hefur mér verið sagt: Það eru ekki til neinar fundargerðir. Það er bara til eitt minnisblað og það er minnisblaðið sem er í gögnum þingmanna. Það vill svo til að það minnisblað var skrifað í flugvél og minnisblaðsritarinn var nappaður við þau skrif og þess vegna höfum við fengið afrit af því blaði. Ætlar ríkisstjórnin að halda því fram fullum fetum, eins og hún hefur gert í skriflegum svörum við fyrirspurnum undirritaðrar, að eftir alla þessa samningafundi nefndarinnar sem á ekki kalla samninganefnd, sérfræðinganefndarinnar, sem fór og kynnti fyrirvarana að einungis hafi verið tekið saman eitt minnisblað, að ekki hafi verið skráðar frásagnir af þessum fundum. Hvaða vitleysa er þetta? Það vita allir sem hafa starfað í stjórnsýslunni að svona er þessu ekki háttað.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að farið sé að venjum í milliríkjasamskiptum við meðhöndlun málsins. En venjan er óvart sú að lögð eru fram minnisblöð sem á ensku eru ýmist kölluð Pro Memoria, skammstafað PM, Talking Points, þannig að það liggi fyrir, til áréttingar mikilvægum erindum sem flutt eru munnlega við ráðamenn og fulltrúa annars ríkis. Hefur það verið gert í Icesave-málinu? Er það mál ekki það mikilvægt að átt hefði að viðhafa slík vinnubrögð? Maður hefði haldið það. Ef ráðherrann telur að þetta sé í samræmi við venjur þá held ég að hann hafi ekki ráðgast við starfsfólk utanríkisþjónustunnar. Ég get ekki annað en látið mér detta í hug að allir þeir fundir sem hæstv. utanríkisráðherra sagðist hafa átt um þetta mál, sem greinilega voru fullkomlega gagnslausir af því að engin niðurstaða varð af þeim — hann hefur verið á þönum út um allar koppagrundir til að tala fyrir Evrópusambandsumsókninni og minnst á Icesave-málið í hjáverkum. Þess vegna vill hann ekki láta birta fundargerðir vegna þess að það er ekkert á þeim fundargerðum að græða. Ég held að það sé sannleikurinn í málinu. Þetta er sorglegt.

Ég veit að við sem sitjum á Alþingi tökum hlutverk okkar mjög alvarlega. Þingið er skjöldur þjóðarinnar og við erum fótgönguliðarnir sem eigum að bera þann skjöld. Skjöldurinn getur verið þungur þegar höggin dynja á honum og þá er mikilvægt að við stöndum öll saman sem einn maður. Í þessu stóra máli hefur okkur því miður ekki tekist að ná samstöðu og það er sorglegt því að þetta hefði átt að þjappa okkur saman sem þjóð gegn viðsemjendum okkar en ekki sundra okkur í frumeindir í þinginu. En við þá sem eru við það að gefst upp segi ég þetta: Ykkur finnst kannski skjöldurinn þungur núna vegna þess að það mæðir mikið á ykkur. En ekki gefast upp því að skjöldurinn má ekki brotna. Við verðum öll að standa saman með skjöldinn á lofti vegna þess að þannig náum við árangri.