138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega málið, við erum eiginlega spurð að því: Hvað viljið þið gera? Hvað viljið þið gera við þetta Icesave-mál? Svarið við því er mjög einfalt: Við viljum að lögin frá því í sumar standi. Það er nákvæmlega það sem við viljum og það var einmitt ekki til þess ætlast að farið yrði í samningaviðræður um fyrirvarana, enda var það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson kallar að klikka illilega á grundvallarforsenda þess að við sjálfstæðismenn t.d. studdum þessa fyrirvara. (Gripið fram í.) Þetta var mikilvægt skilyrði af okkar hálfu. Og aðeins út af því að þingmaðurinn kom inn á hjásetu okkar sjálfstæðismanna, vil ég rifja það upp og ítreka og minna fólk á að við greiddum atkvæði með öllum fyrirvörunum við atkvæðagreiðsluna 28. ágúst. Þar sem við sátum hjá var afgreiðslan um málið í heild vegna þess að ekki var hægt að aðskilja frumvarpið frá hinum ömurlega samningi frá 5. júní sem ríkisstjórnin ein, eins og hefur orðið algerlega kristaltært og skýrt eftir minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir utanríkismálanefnd, ber ábyrgð á. Ríkisstjórnin ein ber ábyrgð á því ferli sem hún setti af stað með skipan nýrrar samninganefndar. Það er enginn annar en ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem getur hampað þeim fína Icesave-samningi sem sínum eigin. Það er Icesave-stjórnin, algerlega skuldlaus, sem á þennan samning algerlega ein. Og að horfa upp á það að farið var að semja um þá fyrirvara, semja um þau lög sem við settum á Alþingi er eins og allt annað í þessu máli hróplega sorglegt.