138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru skynugar spurningar hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég sé fyrir mér að nýir samningar fælu í sér að farið yrði að íslenskum lögum við úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands. Ég sé fyrir mér að vextir yrðu mun lægri. Það er auðvitað samningsatriði hvort það yrðu breytilegir vextir en grundvallarforsendan sem ég mundi vilja ganga út frá í nýjum samningum er að þetta væri ekki hefðbundinn viðskiptasamningur heldur milliríkjasamningur til að leysa vandamál sem komu upp í kjölfar eðlis innlánstryggingakerfis allra landanna sem varð raunverulega þessari fjármálakreppu að bráð.

Ég gæti vel séð fyrir mér að íslenski tryggingarsjóðurinn mundi njóta sömu kjara með þetta lán og tryggingarsjóðurinn nýtur í Bretlandi eða 1,5%. Ég tala ekki um í Hollandi þar sem ekki eru borgaðir neinir vextir af lánum til tryggingarinnstæðusjóðsins. Ég er ekki ósáttur við að greiðsluskyldu sé aflétt af Íslandi í sjö ár og síðan verði önnur sjö ár notuð til að borga upp. Ég sæi fyrir mér að vextir af lánum mundu byrja að telja 23. október sem var seinasti dagur til að gera upp. Ég sé fyrir mér að kostnaður Breta t.d. verði takmarkaður, ekki við 2 milljarða eins og er gert núna sem mun tikka á 5,55% vöxtum heldur við eitthvað mun raunhæfara. Ég sé fyrir mér að þetta mál verði leyst á pólitískum grunni á þann hátt að menn geti farið frá því með sæmd, bæði Íslendingar og Bretar, en öll áhættan og niðurlægingin í málinu liggi ekki (Forseti hringir.) Íslendinga megin.