138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er þá komið fram. Hv. þingmaður telur rétt að við göngum til samninga um að greiða höfuðstól og greiða vexti. Ágreiningurinn felst þá fyrst og fremst í því hversu háa vexti. Það getur auðvitað skipt umtalsverðum fjárhæðum en vegna þess að hv. þingmaður er vel að sér um efnahagsmál hlýtur maður að spyrja hvort hann meti í engu þá miklu óvissu og efnahagslegu áhættu sem það hefði í för með sér að hafna samningnum á móti þessum atriðum sem hann vildi sjá eilítið betri í samningnum. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður gengst við skuldbindingunni, hann gengst við hinum gríðarlegu fjárhæðum sem við stöndum andspænis, hann gengst við því að þær þurfi að greiða og að það þurfi að greiða af þeim vexti. Hann virðist fyrst og fremst vera ósáttur við hversu mikla vexti. Finnst honum ekki skipta raunverulega máli og vera raunveruleg verðmæti í því fólgin að ljúka sem allra fyrst deilunni að setja niður óvissuna, koma efnahagsáætlun landsins af stað, hjólum atvinnulífsins og fjárfestingu í landinu?