138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir efnismikla ræðu. Ég heyrði ekki betur en hann segði í sinni ræðu að höfnun Icesave fældi frá erlenda fjárfestingu og viðhéldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis og að samþykktin feli í sér skammtímaábata en verri lífskjör til langs tíma. Við hv. þingmaður höfum tekist á um ýmislegt í vetur en við erum þá greinilega sammála um að erlend fjárfesting og erlend fjármögnun sé ein lykilforsenda þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Þar með gegnir lúkning Icesave-málsins lykilhlutverki, ef ég skil orð hv. þingmanns rétt.

Leiðir slíkt af sér verri lífskjör til lengri tíma? Væri ekki hyggilegra að freista þess af öllum mætti að koma atvinnulífinu í gang við fyrsta tækifæri og styrkja þannig lífskjörin til langs tíma, stækka þannig kökuna sem er til skiptanna og greiða af Icesave í hagvexti frekar en að fara leið sjálfstæðismanna og dýpka kreppuna, til skamms tíma vissulega en dýpka kreppuna engu að síður, í von um betri samning sem er alls óvíst um eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar? Ég tel að þessi leið herði enn þá í snörunni um íslenskt atvinnulíf sem er orðin óbærileg um þessar mundir og ég held að þessi leið sé ekki spennandi. Þetta er óspennandi hættuför.