138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi í ræðu minni að víkja aðeins að þessu atriði. Við erum sammála um að hlutirnir verða erfiðari til skemmri tíma með höfnun. Ég rakti þetta með vextina áðan. Segjum sem svo að við náum að greiða helmingi minna með raunhæfum vöxtum með því að það verði farið með úthlutun úr þrotabúi Landsbankans að íslenskum lögum og annað slíkt sem hv. þingmaður þekkir alveg. Það þýðir að skuldin verður um 150–200 milljörðum minni en við núverandi samning og þessir 150–200 milljarðar eru allt peningar í erlendum gjaldeyri sem hægt væri að nota til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi ef ekki kæmi til þessi greiðslubyrði.

Eins og hv. þingmaður þekkir vel, og ég skrifaði um í doktorsritgerð minni um hagvöxt, er beint samband á milli fjárfestingar, hagvaxtar og lífskjara og það er það sem ég á við með að langtímahorfurnar verði betri. Peningar sem ekki lenda í ríkiskassanum í Bretlandi og Hollandi verða notaðir í fjárfestingu og uppbyggingu á Íslandi sem mun koma öllum Íslendingum til góða og auka lífskjör á Íslandi.