138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að því er varðar ártalið 2024 var gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðin gilti til ársins 2024. Það var aldrei sagt að þar með féllu niður eftirstöðvar ef þær yrðu einhverjar. Reyndar var gengið út frá því að lánið yrði uppgreitt á þeim tíma en ef svo færi að reyndi á efnahagslegu fyrirvarana og lánið væri ekki að fullu greitt árið 2024 var aldrei hugsunin, a.m.k. ekki af minni hálfu, að þar með féllu sjálfkrafa allar eftirstöðvar niður (Gripið fram í.) heldur var talað um að þá ætti að taka upp viðræður milli aðila.

Varðandi vextina þá er það rétt hjá þingmanninum að gert er ráð fyrir því núna að vextir séu alltaf greiddir. Það var ekki gert ráð fyrir því í málinu eins og það var í sumar. Það var þó rætt á vettvangi fjárlaganefndar hvort ástæða væri til að taka það sérstaklega fram og samkvæmt þeim útreikningum sem Seðlabankinn hefur gert eru engar líkur á öðru en að (Forseti hringir.) það sé rými fyrir vaxtagreiðslurnar innan þeirra efnahagslegu fyrirvara sem eru komnir inn í samninginn sjálfan.