138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi verið búinn að útskýra það áðan, í andsvari við hv. þm. Magnús Orra Schram, að í þessu fælist alger útúrsnúningur á orðum hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar svo að ég ætla ekki að reyna að greina það nánar.

Þessi spurning kemur iðulega upp: Ef þið viljið ekki fallast á þennan samning eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa hann, hvað viljið þið þá gera? Þetta er mjög undarleg spurning. Við skulum líkja ríkisstjórninni við heimilisföður eða móður sem tæki á móti einhverjum fanti eða níðingi sem ætlaði að reka fjölskylduna út af heimili sínu og krefðist þess að fá húsið, fá eignir fjölskyldunnar af einhverjum óskilgreindum ástæðum, hann teldi sig eiga eitthvað inni hjá þeim. Viðbrögðin hjá heimilisföðurnum væru þá þau: Já, ætli ég verði ekki að fallast á þetta? Hvað annað get ég gert? Ef ég á ekki að fallast á þetta ætlar þá einhver að segja mér hvað ég á að gera?

Hér er verið að koma með kröfur á hendur Íslendingum. Það er alltaf verið að snúa dæminu við. Bretar og Hollendingar eru að koma með ósanngjarnar kröfur. Ekki bara ósanngjarnar heldur kröfur á hendur Íslendingum sem ekki er lagaleg stoð fyrir. Hvernig er þá alltaf hægt að koma með spurninguna: Ef þið viljið ekki ganga að þessum kröfum hvað viljið þið þá gera? Þetta er mjög einfalt mál. Jú, við erum tilbúin til þess, eins og lýst var yfir á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar á sínum tíma, að gefa Evrópusambandinu séns á að hafa milligöngu í málinu enda byggist það á gölluðu evrópsku regluverki eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur m.a.s. lýst. En gangi það ekki, sé ekki hægt, fyrir milligöngu þess sambands sem samdi reglurnar, að ná samningum þá stefna Bretar og Hollendingar þrotabúi Landsbankans, eða réttara sagt innstæðutryggingarsjóðnum, fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur úti við Lækjartorg.