138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:34]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn ber höfðinu við steininn. Það er sérkennilegt á þessum tímum, á jólahátíðinni þegar menn hafa oft haft gaman af því að lifa sig inn í andrúm Grýlu og Leppalúða og þeirrar fjölskyldu, fulltrúanna úr björgum landsins, en þegar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru gengnir í þessi hlutverk er það ekki lengur skemmtilegt. Það drullumall sem á sér stað hjá hæstv. ríkisstjórn í því er lýtur að Icesave-samningunum er skelfilegt og lítið kræsilegt. Erum við hæstv. utanríkisráðherra þó ýmsu vanir í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Þessi vegferð ríkisstjórnar Íslands í dag minnir á Jón andskota. Jón andskoti var síðutogarakarl á miðri síðustu öld, frægur togarajaxl, sérlega lágvaxinn, kjarnyrtur, beinskeyttur og skemmtilegur. (Utanrrh.: Það er ekki leiðum að líkjast.) Hann lenti í — og nú kem ég að því hvað er líkt með vegferð hans og ríkisstjórnarinnar — einstaklega löngum túr á einum síðutogaranum, þriggja mánaða túr. Hann hlakkaði mikið til að koma í land og halda upp á það með vinum og félögum á góðum stundum. Hann komst að bryggju, fékk tollinn um borð, freistaðist til að opna tollinn og á leiðinni upp bryggjuna komu vinir hans til liðs við hann og þetta endaði með því að Jón andskoti fór aldrei lengra frá borði en upp á bryggjuna og yfir í næsta togara. Það var óviljandi, en sá togari var að fara í þriggja mánaða túr. Hann grét fyrstu dagana um borð en bar sig svo vel. Þannig hefur þessi ríkisstjórn verið í Icesave-málinu á þessu ári. Fyrst fóru þrír mánuðir á Alþingi í að lagfæra þá skelfilegu samninga sem ríkisstjórnin hafði skrifað undir, síðan kom stutt hlé og aftur fór ríkisstjórnin í þriggja mánaða túr. Það hefur ekkert skeð á þessari leið, ekkert, heldur farið úrskeiðis og nú hallar undan fæti. Það eru einföld, klár viðmið sem við búum við í dag í þessum efnum í þeim samningum sem hér er ætlast til að verði samþykktir. Þeir undirstrika að Íslendingar eigi að verða efnahagsleg nýlenduþjóð fyrir Breta og Hollendinga, efnahagsleg nýlenduþjóð fyrir þessar gömlu nýlenduþjóðir.

Icesave-samningurinn eins og hann er settur upp er gróðasamningur fyrir Breta og Hollendinga. Það er skelfilegt að Samfylkingin setur sig ekki inn í undirstöðuatriði Icesave-samninga, aðeins inn í sjónarmið og kröfur Breta og Hollendinga. Talsmenn Samfylkingarinnar kyngja öllu ljúflega í kurteisisskyni við Evrópusambandið sem er draumsýn þeirra í framtíðinni. Það er alveg ljóst að okkur ber engin skylda til þess, virðulegi forseti, að lúta kröfum Evrópusambandsþjóðanna, engin skylda, hvorki siðferðileg né lagaleg. Eina skyldan sem okkur ber að taka tillit til í þeim efnum er að þreyja þorrann eins og við getum með það kverkatak sem þessar þjóðir hafa á okkur og tengjast Icesave-samningunum.

Evrópusambandsþjóðirnar hafa rottað sig saman gegn Íslandi með valdníðslu og ofbeldi.

Virðulegi forseti. Frændur okkar og fyrrverandi vinir á Norðurlöndunum hafa tekið þátt í þessum leik. Það er leitt að geta ekki sagt framar: Kære brødre og venner. Það er farið fjandans til. Við verðum að treysta á okkur sjálf inn í framtíðina og eigum þó góða granna því að ekki skulum við gleyma Færeyingum, vinum okkar. Það hefur ekkert verið gert í leikreglum sem er eðlilegt að gera í þessum efnum út á við. Það hefur ekki verið þrýst á neinn hátt í alvöru á Evrópusambandið, NATO, Norðurlönd, öryggisráðið. Það er farið með slöku verklagi til að ganga frá samningum sem eru mjög alvarlegir fyrir íslenska þjóð. Vitlaust regluverk Evrópusambandsins bitnar verst á Íslendingum. Það er frávísunaratriði á þessum samningum sem hér eru lagðir til að þeir hunsa íslensk lög. Það er frávísunaratriði að þeir neita rétti íslenskra dómstóla. Krafa um ríkisábyrgð er lítilsvirðing og haustak á fámennri þjóð og það er kannski eitt það versta í þessu máli að það snýst ekki í sjálfu sér um peninga. Það snýst um þá lítilsvirðingu, þann hroka og þá skömm sem Evrópuþjóðirnar sýna Íslendingum, íslensku fólki, venjulegu fólki sem vinnur störfin sín á Íslandi um landið allt. Það er það sem særir mest og við eigum ekki að lúta þeim sem sýna okkar fólki lítilsvirðingu og dónaskap. Þeim mun hnarreistari eigum við að vera og þeim mun harðari eigum við að vera og óbilgjarnari í því verklagi sem við þurfum að beita til að ná árangri fyrir þetta fólk, fyrir okkar fólk.

Dómar um sambærileg mál eiga samkvæmt samningnum ekki að hafa nein gildi fyrir Íslendinga. Hvernig er talað um Íslendinga? Sem eitthvert pakk, einhverja afganga, ekki sem þjóð. Sígaunum í Mið-Evrópu er ekki einu sinni boðið upp á svona sem okkur er boðið upp á í Icesave-samningnum. Svo er fólk á Alþingi Íslendinga sem kvakar og fagnar þessu og heldur að það sé að gera einhverja skynsemi. Þetta er skelfilegt, virðulegi forseti.

Ég spyr: Eiga kúrekar Evrópusambandsins að ráða för án dóms og laga? Þeir eiga ekki að ráða för. Evrópusambandið er búið að toppa núna kúrekasamfélag Ameríku fyrr og síðar. Það byggðist þó á því að einn og einn skúrkur var tekinn og einstaklingar sem voru ýmist misgóðir eða misvondir, en Evrópusambandið tekur og fellir þjóð, það reynir að fella heila þjóð þótt hún sé ekki fjölmenn.

Við erum að agnúast út í ýmsar þjóðir og þjóðflokka í Afríku þar sem gengið er að fólki og það fellt. Hvað er Evrópusambandið að gera með vörn sinni og skjóli fyrir Breta og Hollendinga annað en að fella Íslendinga? Það þýðir ekkert að setja upp brusselskan sparisvip og gáfusvip eða heimspekisvip því að þetta er spurning um það að lifa af eins og maður, ekki eins og undirsáti nýlenduþjóða í Evrópu.

Sýknt og heilagt er ruglað saman tímasetningum, stöðu mála, samningsmarkmiðunum 2008 þegar stjórnvöld urðu að grípa til aðgerða undir ógnvekjandi pressu þar sem heimurinn hrundi hreinlega ofan á Ísland og reyndar einnig fleiri lönd. Þar voru vissulega gerð mistök og það er engin ástæða til að verja það, en það er ekki nema ár síðan menn töluðu til að mynda um að það sem gæti staðið út af fyrir Ísland væri 75 til á annað hundrað milljarðar. Það er mikill munur á því sem staðreyndin er í dag og því sem þessir samningar gefa í skyn, gróðasamningar Breta og Hollendinga þar sem þeir ætla að græða á Íslandi eins og danski kóngurinn græddi um aldir á Íslandi. Þá voru ákveðin svæði við Ísland kölluð gullkista Íslands af því að þau gáfu svo mikið af sér. Lyktin leynir sér ekki þegar Evrópuþjóðirnar stilla upp græðgi sinni gagnvart smærri þjóðum.

Möguleikarnir voru stórkostlegir með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar fyrr á þessu ári vegna þess að þá losnaði um ákveðin atriði sem voru deiluatriði og tilheyrðu fyrrahausti, haustinu 2008. Þetta hefur fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar dregið mjög ljóst fram, ljósar en allir aðrir stjórnmálamenn á þessu tímabili. Í bréfi til utanríkismálanefndar 18. desember sl. fjallaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um þaninn streng stjórnvalda í Evrópu frá haustinu 2008 vegna ótta við óróann á fjármálamörkuðum og áhlaup á evrópska banka þar sem hvert land fyrir sig varði sinn eigin rass fyrir mistökunum sem voru í regluverki Evrópusambandsins. Með tilvitnun í bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá 18. desember sl. sagði hún, með leyfi forseta:

„Rétt er hins vegar að taka fram að þó að hin sameiginlegu viðmið feli í sér pólitíska skuldbindingu þá skuldbinda þau Ísland ekki með neinum hætti að þjóðarétti ef ný stjórnvöld vilja hafa þau að engu.“

Hún kvað m.a.s. fastar að orði en fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde. Þetta segir alla söguna í hnotskurn. Þetta segir að sífelldur flótti hæstv. fjármálaráðherra Steingríms Sigfússonar undir pilsfald þessarar samningsgjörðar er ekki á rökum reistur. Áform um að ganga til samninga er eitt, annað er að ganga til samninga og ljúka þeim. Þar getur nótt snúist í dag og norður í suður ef því er að skipta.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði á þingi laust fyrir kvöldmat í gær að við hefðum gengið inn á þá skilmála sem samþykktir höfðu verið. Það voru engir skilmálar samþykktir, það er ekki bara rangt, það er lygi, virðulegi forseti. Ef ráðherra kvartaði yfir stöðunni fyrir hönd Breta og Hollendinga var hann málsvari þeirra en ekki íslenskrar þjóðar. Það er sorglegt að þessir gömlu baráttujaxlar Íslands, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, eru núna (Forseti hringir.) eins og ljósrit af dúkkulísum í þeirri baráttu sem við eigum að standa í, (Forseti hringir.) ljósrit af dúkkulísum, (Forseti hringir.) og er þá heldur meira lagt í en ástæða er til, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.