138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum nú áfram umræðu um Icesave-málið og Icesave-skilmálana ógurlegu sem ríkisstjórn Íslands hefur fallist á og því miður afbakað þau lög sem eru í gildi í landinu og voru samþykkt með þverpólitískri sátt, vil ég segja, í sumar. Við erum komin inn í 3. umr. og ég hef hlustað með athygli á athugasemdir, andsvör og ræður, furðulegar ræður oft og tíðum, frá ráðherrum í ríkisstjórn þar sem þeir minnast ekki einu orði á þau gögn sem hafa komið fram og nýjar upplýsingar sem rökstyðja þær fullyrðingar sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum sett fram í allri umræðu okkar.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um að einn fundur sé í gangi í þingsal í einu, gefa ræðumanni hljóð.)

Ég þakka, herra forseti. Öll þau gögn sem hafa komið fram, óþægileg gögn greinilega, pólitísk gögn, henta ekki þeim veruleika sem blasir við okkur og ímyndarheimi ríkisstjórnarinnar. Í ræðu hæstv. ráðherra er ekki minnst einu orði á gögn sem hafa komið skýrt fram í skýrslu Mishcon de Reya, á álit þeirrar lögmannsstofu, álit fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og formanns Samfylkingarinnar, hvað þá sumra þingmanna í stjórnarmeirihlutanum. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á þetta. Það kemur ekki á óvart því að fjármálaráðherra hefur reynt að lítillækka bresku lögmannsstofuna og 75 ára sögu hennar og talað niður til hennar, því að orð hennar og álit henta ekki málflutningi ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur verið minnst á bréf fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar til fjárlaganefndar.

Við erum komin að þessum ákveðnu tímamótum og gerum okkur grein fyrir því að á morgun verður atkvæðagreiðsla um þetta mál, um Icesave. Enn sem komið er er ekki alveg ljóst hvernig sú atkvæðagreiðsla fer. Mér segir þó svo hugur um að stjórnin sé búin að tryggja sér meiri hluta. Við þá þingmenn sem enn eru að velta þessu máli fyrir sér og eru ríkisstjórnarmegin, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, hv. þm. Ásmund Einar Daðason og hv. þm. Atla Gíslason, sem reyndar mun ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni á morgun, vil ég hins vegar segja: Hugsið þetta stærra en svo að þetta snúist um flokkspólitíska hagsmuni. Þetta snýst ekki um vinstri eða hægri. Þetta snýst ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu og það hefur verið ítrekað í stjórnarandstöðunni en aldrei fengist undirtektir við því að lyfta sér yfir þær skotgrafir sem allir flokkar hafa oft og tíðum fallið í og nálgast málið þverpólitískt. Ég vil segja við þessa þrjá hv. þingmenn sem ég nefndi áðan, Ásmund Einar Daðason, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Atla Gíslason, að stjórnarandstaðan hefur ekki það markmið að koma ríkisstjórninni frá í þessu máli. Þetta mál er allt of stórt til þess að við getum leyft okkur að nálgast það með þeim hætti. Ég fékk bágt fyrir að tala um það með ákveðnum hætti að ríkisstjórnin væri fullfær um að koma sér frá sjálf og þyrfti ekki hjálp frá okkur í stjórnarandstöðunni til þess. En þetta mál er of stórt til að við getum nálgast það með þeim hætti eins og ríkisstjórnin og meiri hlutinn hafa gert, eins og ekkert hafi breyst og engin gögn komið fram sem undirstriki málflutning okkar í þessu öllu saman.

Við í Sjálfstæðisflokknum fengum um tíma í sumar bágt fyrir að nálgast málið einmitt með þessum hætti, reyna að fara inn í það og breyta því ömurlega máli sem átti að dylja þingið í byrjun júní. Við skulum muna að ekki átti að segja þinginu frá samningnum eins og málum var þá háttað. Það átti ekki að greina okkur frá því hvernig í málinu lægi. Við sjálfstæðismenn fórum í málið og nálguðumst það með það að sjónarmiði að gera það eins þolanlegt og hægt væri fyrir íslenska þjóð og íslenska hagsmuni til lengri tíma litið og gerðum það. Við fórum í þann leiðangur og okkar fólk í fjárlaganefnd stóð sig með eindæmum vel. Maður hefði einmitt haldið að eftir þau, að því er sumir sögðu, sögulegu vinnubrögð hefði ríkisstjórnin sem hefur verkstjórnina í þessu máli — við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur verkstjórnina og á að hafa kraft til að leiða mál til lykta á alþjóðavettvangi. En ríkisstjórnin greip ekki það sögulega tækifæri að halda áfram með málið á grundvelli löggjafarvaldsins í sumar, ekki á grundvelli framkvæmdarvaldsins. Forustumenn Samfylkingar og forustumenn Vinstri grænna komu ekki til forustumanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingar og sögðu: Kæru vinir. Nú skuluð þið koma með okkur í leiðangur til Hollands og Bretlands. Þið skuluð axla ábyrgð með okkur og sýna þann kraft og þá eindrægni sem ríkir hér í sölum Alþingis við það að breyta þessu máli og standa við þau lög sem við samþykktum í lok sumars. Það var ekki gert og ég átel sérstaklega þau vinnubrögð því vinnubrögð og verklag þessarar ríkisstjórnar hafa stuðlað að því að við stöndum frammi fyrir jafnömurlegu samkomulagi og raun ber vitni. Það er ekki hlustað á neitt og einstrengingsháttur, kergja, þrjóska og óbilgirni hafa leitt til þess að við erum komin í þá stöðu að þurfa að greiða atkvæði á morgun um þetta mál. Og það er ekki kominn tími til þess. Við höfum heyrt það alveg frá fyrri hluta síðasta árs að allt mundi fara í bál og brand ef við samþykktum ekki málið á stundinni. Það hefur sýnt sig að við höfum enn tíma og ég sé enn þá ljóstýru að menn sjái að sér á þeim fáeinu klukkustundum sem eru fram að atkvæðagreiðslunni á morgun, að ríkisstjórnin sjái að sér og leiði alla stjórnmálaflokkana saman til að leiða þetta mál til lykta á þeim grundvelli sem við samþykktum í sumar. Síðan kemur hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum hér upp í pontu og reynir að segja okkur það að fyrirvararnir frá því í sumar séu einhvers staðar faldir neðanmáls, einhvers staðar aftan við í því máli sem við erum að tala um. Það er rangt og það er margsýnt fram á að svo er ekki. Menn reyna líka að segja að ekki sé hægt að breyta neinu, það sé ekki hægt að ná neinu frekar fram. Það er rangt að mínu mati.

Við skulum ímynda okkur að við séum stödd í hinu pólitíska landslagi í Hollandi eða Bretlandi. Þar er skiljanlegur þrýstingur af hálfu almennings og ríkisstjórnar að leiða þetta mál til lykta. En ég fullyrði að hvorki Bretar né Hollendingar og þá er ég ekki að tala um stjórnmálamennina heldur almenning sem veitir stjórnmálamönnum í þeim löndum aðhald, ég fullyrði að almenningur í þeim löndum er ekki að fara fram á það að Hollendingar og Bretar traðki á okkur Íslendingum eins og þeir eru í raun að gera, þeir svínbeygja okkur þegar kemur að vöxtum, greiðslum á samkomulaginu öllu til lengri tíma litið, að það verði sett hér ríkisábyrgð með þeim hætti að við verðum föst í skuldaklafa til næstu ára og áratuga. Almenningur í Hollandi og Bretlandi fer ekki fram á þetta samkomulag sem við stöndum frammi fyrir. Þeir vilja sanngjarna lausn, ekki þá uppgjöf sem íslensk stjórnvöld, Icesave-stjórnin, hefur fallist á. Þessi stjórn verður kölluð Icesave-stjórnin og hún ber fulla ábyrgð á því samkomulagi sem við erum að ræða um hér, fulla ábyrgð og það þýðir ekki að fara með málið eins og menn séu í borðtennis og reyna að kenna fyrri ríkisstjórn um. Það er alveg ljóst.

Fyrri ríkisstjórn gerði mörg mistök. Ég hef margoft sagt það hér en menn þurfa líka horfast í augu við þann veruleika sem til staðar er og það sem fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa skrifað til að draga fram þann veruleika sem þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir. Það er eins og ríkisstjórnin núna, vinstri stjórnin, Icesave-stjórnin haldi að hún sé enn í þeirri spennitreyju sem við vorum í á þeim tíma. Það er ekki þannig. Við höfum tíma til að fara betur yfir þetta mál, sýna þverpólitískan vilja og samstöðu til að ná fram þeim hagsmunum sem skipta okkur Íslendinga máli, með því að tala máli okkar á erlendri grundu. Það hefur margoft komið fram að lyftusamtöl utanríkisráðherra Íslands duga ekki til að skila þessu máli áfram fyrir okkur. Ég veit ekki hversu oft hæstv. forsætisráðherra hefur talað við kollega sína. Ég held aldrei. Ég held að hún hafi miklu frekar skrifast á við þá, sem hún hefði hugsanlega betur ekki gert, því ákveðinn undirlægjuháttur er í öllum þeim bréfaskrifum. En gott og vel. Við í stjórnarandstöðunni höfum sýnt það aftur og aftur að við erum reiðubúin til að taka þátt í þessum leiðangri, en ekki til að fella stjórnina. Af hverju segi ég þetta ítrekað? Ég segi þetta ítrekað af því að við þingmenn vitum það og skynjum það andrúmsloft sem er verið að skapa gagnvart þeim þingmönnum í stjórnarmeirihlutanum sem eru undir þrýstingi um að segja já á morgun, ýta á græna takkann þannig að Íslandi verði allt að óhamingju. Ég vil segja við þessa þingmenn og ítreka það: Þetta mál snýst ekki um það að koma þessari vinstri stjórn frá, við höfum mörg önnur mál til að taka í lurginn á henni. Þetta mál er of stórt til þess að við leyfum okkur að hugsa með þeim hætti.

Herra forseti, ég vil undirstrika að ástandið er með öðrum hætti en fyrir rúmu ári síðan. Ég vil ítreka það að við ræðum um langtímahagsmuni þjóðarinnar. Menn hafa sagt það hér, m.a. hv. þm. Magnús Orri Schram sem virðist vera helsti talsmaður stjórnarmeirihlutans þegar kemur að því að verja þetta mál, að verið sé að klára þetta mál til að endurreisn Íslands geti hafist. Það er kjaftæði. Það er algert kjaftæði. Nú á síðustu vikum hefur atburðarásin sýnt að við höfum fengið opnaðar lánalínur og haldið uppi þeim samskiptum sem við höfum þurft á að halda til að koma viðskiptum okkar af stað. Aðrir þættir draga úr því að endurreisn Íslands geti hafist af meiri krafti en raun ber vitni. Ég þarf ekki að fara frekar út í þá sálma en ég nefni meðal annars ömurlega skattapólitík, atvinnumálapólitík ríkisstjórnarinnar sem heftir landið en ýtir því ekki af stað.

Ég vil undirstrika það sem hefur komið mjög skýrt fram í ræðum bæði í dag og í gær að endurreisn Íslands hefst ekki með því að afgreiða þetta mál því að samningurinn byggir á því að gengi íslensku krónunnar verði lágt áfram og lækki jafnvel enn frekar ef miðað er við spá Seðlabanka Íslands. Er það veruleiki sem ríkisstjórn Íslands, vinstri stjórnin, Icesave-stjórnin ætlar að bjóða Íslendingum upp á? Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki talað meira um þá þætti samkomulagsins en raun ber vitni? Af því að allt það sem er óþægilegt og ömurlegt í þessu samkomulagi á að fela, ýta undir teppið eða vera með hálfsannleika um í þessari pontu. Það er þannig sem stjórnarmeirihlutinn hefur nálgast málið. Stór orð mundu ýmsir segja. Það má reyndar ekki anda á þessa ríkisstjórn með gagnrýni, því þá er allt svo óskaplega ósanngjarnt en þannig er nú bara einu sinni sá veruleiki að vera í ríkisstjórn, þá má maður ekki veigra sér við að fara ákveðin svipugöng, sérstaklega ekki þegar menn þurfa að heyra þá gagnrýni sem við höfum sett fram í málinu, en ríkisstjórnin hlustar ekki á hana.

Ég vil, herra forseti, vitna í Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem sendi hv. þingmönnum opið bréf og ítrekaði það sem við höfum bent á varðandi langtímahagsmuni þjóðarinnar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við hvetjum þingmenn til að gera upp hug sinn út frá langtímahagsmunum þjóðarinnar en ekki óljósum hótunum um hitt og þetta. Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir því að endurreisa íslenskt fjármála- og atvinnulíf og Icesave-málið er eitt af þeim viðfangsefnum sem þarf að ljúka. Afgreiðsla málsins má þó ekki íþyngja okkur til frambúðar heldur verður hún að vera viðráðanleg fyrir íslensku þjóðina. Þetta mál snýst ekki um að vinna pólitíska sigra heima fyrir heldur að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar komi saman allir sem einn á ögurstundu. Sú stund er runnin upp.“