138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi einmitt verið að tengja spurningu sína mjög skilmerkilega við þær ræður sem fluttar hafa verið og við mína ræðu sem ég flutti áðan.

(Forseti (ÁÞS): Forseti var að minna hv. þingmann á ákvæði þingskapa um andsvör. Sú ábending er komin á framfæri til þingmanns og forseti þarf ekki á áréttingu frá þingmanninum sem er í ræðustól að halda hvað þetta varðar.)

Herra forseti. Ég hef málfrelsi í ræðustól og ég vil þá nýta það málfrelsi sem ég hef og lýsa því yfir að mér finnast þessi vinnubrögð af hálfu herra forseta vera dæmigerð fyrir öll vinnubrögðin í Icesave-málinu. Það má ekki segja óþægilega hluti. Það verður alltaf að fela þá, það verður að tipla á tánum í kringum alla skapaða hluti, m.a. í kringum þau nöturlegu ummæli sem fram komu hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni í gær. Já, þetta eru svik við okkur sem lögðum okkur fram. Ég talaði um það í ræðu minni að við fengum bágt fyrir hjá nokkrum af okkar flokksmönnum og víða um land fyrir að taka þátt í því að reyna að laga málið í sumar. En menn sáu síðan að það var rétt að taka það skref. Við fórum af heilindum í það mál, við fórum aðrar leiðir en hefðbundin, ömurleg stjórnarandstaða Steingríms J. Sigfússonar í gegnum 18 ár. Þannig stjórnarandstöðu vildum við ekki stunda, heldur fórum í málið með það að markmiði að reyna að standa vörð um íslenska hagsmuni. Þess vegna er sárt að finna það að á lokametrunum fylgdi ekki hugur máli hjá ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli.

Það er hins vegar eitt sem ég vil vekja athygli á. Menn hafa nálgast þá umræðu varðandi fyrirvarana í sumar að við ætluðum ekki að borga neitt, við ætluðum ekki að greiða eina einustu krónu. Það er ekki rétt. Ef allt gengur samkvæmt því sem Seðlabankinn setur upp sem sínar forsendur hefðum við samkvæmt fyrirvörum Íslands borgað þetta samkomulag upp 2024 ef hagvöxtur yrði í samræmi við spár Seðlabanka Íslands. Ríkisstjórn Íslands klúðraði því að kynna fyrirvarana og þau lög sem enn eru í gildi og verða vonandi í gildi (Forseti hringir.) fram eftir, fram yfir atkvæðagreiðsluna á morgun. Ríkisstjórn Íslands (Forseti hringir.) klúðraði þessu máli. Það er enginn annar sem getur axlað þá ábyrgð en ríkisstjórnin, Icesave-stjórn, (Forseti hringir.) vinstri stjórn Íslands.