138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þá seinni sem hann flytur, en hann kom ekkert inn á það hvað gerist ef þetta verður fellt, ef við sem erum á móti þessu náum því fram að frumvarpið verði fellt. Þá getur ýmislegt gerst. Bretar og Hollendingar gætu sent okkur skeyti um að þeir fallist á fyrirvarana frá því í sumar — það munu þeir væntanlega gera því að þeir munu sjá sína sæng útbreidda — eða að þeir geta farið í málaferli við Íslendinga. Þá leita þeir til Héraðsdóms Reykjavíkur og kæra íslenska ríkið. Þá kemur náttúrlega tilskipun Evrópusambandsins sem væntanlega mun leiða til þess að við verðum dæmd til að borga ekki krónu — eða pund eða evru.

Ef við hins vegar af einhverjum ástæðum yrðum dæmd til að borga eitthvað er svo merkilegt að í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem gilda á Íslandi, lögum nr. 98/1999, segir í 9. gr., með leyfi frú forseta:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Þarna mættu íslenska ríkið og innlánstryggingarsjóður greiða alla innstæðuna í íslenskum krónum og Bretar og Hollendingar gætu aldrei náð henni út vegna gjaldeyrishaftanna. Síðan gæti vinstri stjórnin skattlagt fjármagnstekjurnar alveg í botn og þeir hefðu lítið við þessa peninga að gera.

Ég er ansi hræddur um að í báðum tilfellum, hvort sem þeir vinna málið eða tapa, verði þeir miklu verr settir en bara við að skrifa undir fyrirvarana frá því í sumar sem gilda núna og gilda áfram ef þetta verður fellt.