138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom einmitt að lykilhluta þessa máls sem snýr að því hvernig við erum skuldsett og verðum skuldsett til framtíðar. Samkvæmt því, ef þetta verður samþykkt, er verið að skuldsetja íslenska þjóð um hundruð milljarða í erlendri mynt. Hvað leiðir það af sér? Við þurfum að greiða afborganir erlendis sem mun hafa þau áhrif á gjaldmiðil okkar að hann viðhelst mögulega veikur um ókomna tíð. Hvað þýðir það á íslensku gagnvart lífskjörum hér á landi? Við munum því miður hugsanlega breytast í algert láglaunasamfélag. Þegar menn tala um og bera saman þær skuldir sem Íslendingar munu þurfa að greiða, í erlendri mynt, og annarra landa sem skulda mikla fjármuni þá skulda þau mörg hver í sinni eigin mynt. Það er grundvallarmunur á því og hefur mikil áhrif á hvert álagið er á gengi viðkomandi gjaldmiðils. Þetta er því stór hluti af þessu máli. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að benda á að ef á okkur væri sótt og ef svo illa færi að við mundum tapa því máli þyrftum við mögulega ekki að greiða það í erlendri mynt heldur í okkar eigin mynt sem hefði virkilega góð áhrif.

Mig langar að lokum í þessu fyrra andsvari, ef ég kæmi ekki upp síðar, að þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni, af því að ég á ekki von á því að ég eigi eftir að standa mikið upp. Þetta hefur verið ansi erfitt á köflum en ég tel að við höfum staðið vaktina ágætlega. Því miður styttist stundin og tíminn sem er til stefnu hvað þessi mál varðar og margt bendir til þess að þessi óskapnaður verði að veruleika, sem er miður að mínu mati, en ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætt samstarf á sviði efnahags- og skattanefndar.