138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ræðu hans áðan sem var um margt skemmtileg. Þingmanninum varð tíðrætt um að stjórnarandstöðunni hefði ekki verið boðið að taka þátt í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað í haust og á fyrri stigum málsins og taldi að samstarf og samráð stjórnarliða og stjórnarandstöðu í málinu hefði verið nauðsynlegt og það hefði þurft að mynda eina heild. Auðvitað hefði verið mjög gott ef það hefði verið hægt. Staðreyndin var hins vegar sú að strax á fyrsta degi í haust, upp úr miðjum október, lýstu fulltrúar stjórnarandstöðunnar því yfir á tröppum Stjórnarráðsins, um leið og þeim hafði verið kynnt niðurstaðan í viðræðunum, að þeir ætluðu ekki að vera með. (Gripið fram í.) Þeir lýstu því einfaldlega yfir að þeir ætluðu ekki að vera með í þessu máli, vísuðu ábyrgðinni allri yfir á ríkisstjórnina og sögðu: Við verðum ekki með í þessu. (Gripið fram í.) Það var þeirra yfirlýsing sem stjórnarandstaðan (Gripið fram í.) gaf á tröppum Stjórnarráðsins eftir að hafa verið kynnt sú niðurstaða sem þar varð. (Gripið fram í.) Menn verða að kannast við það. Það var svo sem ekki vilji stjórnarandstöðunnar að bjóða upp á samstarf eða að koma fram sem ein heild í þessu máli (Gripið fram í: Það var búið að semja.) þannig að það kom ekkert á óvart. Hvers vegna eru menn þá að kvarta yfir því núna að hafa ekki fengið að vera með? Þeir vildu það ekki í upphafi. (Gripið fram í.) Talsmenn stjórnarandstöðunnar tilkynntu það hátt og snjallt fyrir framan sjónvarpsmyndavélar (Gripið fram í.) á tröppum Stjórnarráðsins, eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt þeim þá niðurstöðu sem þá var í boði upp úr miðjum október. Þeir höfðu bara engan áhuga á að vera með, [Frammíköll í þingsal.] ekki nokkurn einasta áhuga og lýstu því yfir trekk í trekk að það væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að leysa þetta mál, ekki stjórnarandstöðunnar. Þess þurfti þó ekki því ríkisstjórnarflokkarnir hafa fyrir löngu ákveðið að axla ábyrgð í þessum málum.