138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var með ólíkindum að hlusta á þessa ræðu. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur verið því hann talar um að þetta mál hafi verið að byrja á haustdögum, þá hafi okkur verið boðin aðkoma að málinu. Ég var einmitt að gagnrýna það, ef hv. þingmaður hefur verið að hlusta á ræðu mína, að auðvitað hefði ríkisstjórnin átt að leita til stjórnarandstöðunnar þegar menn fóru í þessa vegferð í upphafi. Að sjálfsögðu hefði ríkisstjórnin líka átt að leita til minni hlutans á Alþingi þegar hún sendi samninganefnd nr. 2 út. Það var ekki leitað til okkar.

Þegar þessir samningar voru orðnir að veruleika og, eins og hv. þingmaður orðaði það svo réttilega, okkur voru kynntar niðurstöðurnar úr þessum samningum, hvað átti stjórnarandstaðan að gera þá? Það var búið að ræða við Breta og Hollendinga. Við fengum ekki að koma að þeirri vinnu. Þar fóru aðalsamningaviðræðurnar fram og ég stóð í þeirri trú eftir að við höfðum samþykkt þessa fyrirvara á sumarþinginu, þann 2. september að mig minnir, með lögum frá Alþingi að það væri skilyrði sem Alþingi Íslendinga hefði sett, fortakslaust skilyrði. Enda er það svo að það er framkvæmdarvaldið sem sækir umboð sitt til löggjafarvaldsins. Nei, samninganefnd nr. 2 fór út og útþynnti þau lög sem Alþingi Íslendinga hafði sett og eru nú enn í gildi. Það er alveg með ólíkindum að kalla síðan forsvarsmenn stjórnarandstöðuflokkanna á smá fund upp í Stjórnarráð til að tilkynna þeim þessa útþynntu samninga og þessi útþynntu skilyrði sem við settum þá og kalla það samráð. Ég býð ekki í hvernig stjórnarhættirnir verða í þessu landi ef hv. þm. Björn Valur Gíslason verður einhvern tímann forsætisráðherra.