138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með síðustu orðaskiptum hér vegna þess að þau eru kannski svolítið dæmigerð fyrir málið allt saman. Eini jákvæði punkturinn í þessari umræðu sem er búin að standa í tvo daga er að maður greinir ákveðið samviskubit hjá sumum stjórnarliðum. Þeir telja ástæðu til að búa til sérstaka söguskýringu um hvað gerðist. Ein söguskýringin gengur út á það að ekki hafi verið hægt að ná samstöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi einungis atkvæði með fyrirvörunum þegar við gengum frá málinu núna á haustmánuðum en sat hjá við atkvæðagreiðslu um samninginn eins og hann lá fyrir. Nokkrir hv. þingmenn hafa minnst á þetta í dag en þeir hafa svo sem ekki botnað þetta, en þetta á að vera einhvers konar söguskýring sem gengur út á það að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað vinna með stjórninni í málinu. Auðvitað er það algjörlega fjarri sannleikanum. Sú vinna sem unnin var í sumar bar öll þess merki og niðurstaðan var á þann veg, reyndar töluðu allir stjórnarliðar um að þarna hefði þingið virkilega sinnt sínu hlutverki og náð góðum árangri og það væri mikill hagur fyrir þjóðina. Stjórnarliðar sögðu líka að þetta væri algjörlega innan ramma samkomulagsins og þeir kviðu því ekki mikið að fara að spjalla um þetta við þá aðila sem málinu tengjast og útskýra fyrir þeim hvernig Alþingi hefði gengið frá málinu.

Við þekkjum síðan, virðulegi forseti, hvað gerðist í kjölfarið. Það sem gerðist var einfaldlega það að menn guggnuðu, menn lyppuðust niður þegar þeir hittu útlendingana og hentu öllum fyrirvörunum. Vinnubrögðin í málinu eru þannig að núna þegar klukkan er 20 mínútur yfir sex, virðulegi forseti, þann 29. desember 2009, og vitað er að greiða á atkvæði um þetta á morgun, eru menn enn að bíða eftir gögnum. Enn eru gögn á leiðinni, gögn sem búið er að bíða eftir mjög lengi, fjármálaráðuneytið hefur neyðst til að aflétta leynd yfir þeim, gögn sem bárust samninganefnd Íslands á vormánuðum frá breskri lögmannsstofu. En það skiptir stjórnarmeirihlutann engu máli, stjórnarmeirihlutinn ætlar að klára þetta. Það hefur enginn stjórnarþingmaður sannfæringu fyrir þessu máli, ég fullyrði það. Ég fullyrði að það er enginn stjórnarþingmaður slíkur bjálfi að telja að þetta samkomulag sé ásættanlegt fyrir Íslendinga. Það er bara ekki þannig. Það er augljóst og það vita allir sem hér starfa. Það hefur m.a. komið fram í umræðuþáttum þar sem fjölmiðlamenn, sem eru frekar vilhallir vinstri flokkunum, eru að ræða þessi mál að þeir reyna að láta að því liggja að það sé eitthvað annað á bak við, það sé einhver redding, auðvitað sé þetta ekki eins og þetta lítur út.

Virðulegi forseti. Það er það sem menn eru að reyna að búa til hérna og menn eru að hugsa mjög skammt. Nú er öllu þjappað saman, nú er gengið á hv. þingmenn sem hafa efasemdir og það er sagt: Þetta snýst ekki um Icesave, þetta snýst um vinstri stjórnina, ætlarðu að klúðra vinstri stjórninni? Það er þannig, virðulegi forseti, sem gengið er núna á hv. þingmenn í stjórnarflokkunum. Þeir eru lamdir saman til að greiða atkvæði í þessu máli sem allir vita og ekki síst þjóðin að er algjörlega óásættanlegt fyrir land og þjóð.

Ég vek athygli á því að það stendur í þessu frumvarpi sem skuldbindur okkur, sem gerir það að verkum að Evrópusambandið, sem verður fulltrúi þessara þjóða, mun geta gengið að okkur, mun geta séð til þess að við höldum þetta samkomulag, það stendur skýrt að okkur ber engin skylda til að greiða þetta. Virðulegur forseti. Svona er málið núna klukkan 20 mínútur yfir 6 í dag og á morgun verður þetta mál klárað og enginn hv. stjórnarþingmaður hefur trú á því að þetta sé góð niðurstaða. Menn trúa því að þetta reddist einhvern veginn og svo vilja menn ekki standa í því (Forseti hringir.) að vera skammaðir fyrir það að skemma stjórnarsamstarf sem er svo mikið sögulegt tækifæri.