138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans, ég hlustaði með athygli. Ég held að það sé kannski ekki hægt að segja af hálfu neins sem hefur þurft að takast á við þetta Icesave-mál frá neinni hlið að maður taki þátt í þeirri vinnu af sérstakri sannfæringu fyrir því að þetta sé gott og skemmtilegt mál. Það er bara þannig að það þarf að kljást við þann pólitíska veruleika sem Icesave-málið er fyrir okkur Íslendinga og það þarf að klára málið.

Það sem ég stoppaði við áðan hjá hv. þingmanni var þegar hann talaði um að það sé söguskýring stjórnarflokkanna að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað vinna með stjórninni. Nú hef ég svo sem ekki sjálf haldið því fram fram að þessu, en mér hefur kannski samt fundist það frekar augljóst að það hafi lítill samstarfsvilji verið í málinu svo ég vil spyrja: Þegar hv. þingmaður segir þetta og vísar í það hvernig málið hafi spunnist að undanförnu, hvað með það þegar fjármálaráðherra mætti og hafði fengið fyrstu viðbrögð frá Bretum og Hollendingum við fyrirvörum Alþingis frá því í sumar og kynnti þau viðbrögð fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og fjárlaganefnd áður en t.d. það var kynnt fyrir ríkisstjórninni eða okkur sem sitjum á þingi fyrir stjórnarflokkana, hvað með …? (HöskÞ: Nýbúinn að ljúga.) Afsakið, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, þú talar bara í þínum ræðutíma. Hver voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar, hver voru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við því þegar fjármálaráðherra fer til fjárlaganefndar og ætlar að reyna að vinna málið þar? (Forseti hringir.) Hver voru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson? (HöskÞ: Þú ert ekki í fjárlaganefnd.)