138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:25]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara koma á framfæri þakklæti til hv. þingmanns ef hann hefur látið þau sjónarmið verða ofan á að bjarga Íslandi frekar en að sleppa því að bjarga ríkisstjórninni, ef málið hefði einhvern tíma snúist um það. Að sjálfsögðu hljótum við öll að vinna að þessu máli með hagsmuni Íslendinga fyrir brjósti en ekki hugsa um hvaða ríkisstjórn kemur eða fer. Þetta er miklu mikilvægara en það.

Svo vil ég benda á að hv. þingmaður var náttúrlega að vísa í umræður í fyrstu umferð um málið, þ.e. þá umræðu sem tekin var í sumar sem ég veit ekki hvort ég á að segja ég því miður tók ekki þátt í. En bragurinn hefur verið allt annar núna í þessari umferð, þ.e. þegar breytingalögin koma til meðferðar þingsins. Þar hefur mér ekki fundist vera sýndur mikill samstarfsvilji hér í ræðustól eða annars staðar.

Annað sem ég vil koma inn á er sá misskilningur eða ég veit ekki hvað ég á að kalla það, jú, köllum það bara misskilning, sem veður hér uppi að við séum, Íslendingar, ein við samningaborðið í Icesave-deilunni eins og við hefðum bara getað sest niður og sagt: Við ætlum að gera þetta svona. Sem hefði verið afskaplega þægilegt (Gripið fram í.) og við hefðum þá bara getað gert það bara strax í upphafi en það er bara ekki svoleiðis. Við á Alþingi, þ.e. þeir sem sátu hér, komu sér saman um að setja fyrirvara. Gott og vel. Því var ekki vel tekið þrátt fyrir að flestir þessir fyrirvarar hafi náðst í gegn.

Svo vil ég líka tala um alþjóðasamskiptin í þessu máli og dómstólaleiðina — ég sé reyndar að ég er að renna út á tíma. En dómstólaleiðin er nokkuð sem hefur líka fengið að ríða hér húsum í dag í mörgum ræðum, sú firra að Íslendingar geti farið dómstólaleiðina í þessu máli. Það er ekki hægt, frú forseti, að fara dómstólaleiðina. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvaða barnaskapur það er að ímynda sér að Bretar og Hollendingar muni einfaldlega fara í röðina hjá Héraðsdómi (Forseti hringir.) Reykjavíkur og bíða prúðir eftir því (Forseti hringir.) að leyst verði úr ágreiningnum þar. Þetta snýst um alþjóðasamskipti og þau eru ekki alltaf sanngjörn og þau eru erfið, (Forseti hringir.) en það er bara svoleiðis.