138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Við sem höfum hvað harðast barist gegn Icesave-frumvarpinu, barist gegn því að það verði samþykkt, barist gegn því að komandi kynslóðir þurfi að taka á sig skuldir sem geta engan veginn verið þeirra, höfum oft verið sakaðir um að vera of myrkir í máli. Það hefur verið sagt um okkur að við séum með dómsdagsspár og að það þýði ekkert að vera með þessa neikvæðni. Það er nú samt þannig, virðulegi forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Einn fund í salnum.)

Það er samt þannig, virðulegi forseti, að núna undir það síðasta hafa verið að berast gögn frá ráðgjafarfyrirtækjum og breskum virtum lögmannsstofum sem í rauninni segja að við höfum ekki talað of hart í þessu máli. Við sem höfum barist gegn því hefðum kannski mátt taka sterkar til orða og vara þjóðina enn frekar við því að taka á sig Icesave-samningana.

Ég eyddi ræðu minni í að fara yfir álit frá IFS Greiningu. Það er fyrsta og eina álitið sem hefur verið gert um þá áhættu sem Íslendingar eru að kalla yfir sig en hér hefur verið gert lítið úr þessu áliti. Þingmenn komið fram og sagt: Mitt mat er nú að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Þeir bæta svo um betur og segja um álit Mishcon de Reya: Ja, ég er þeirrar skoðunar að þetta sé bara ekki rétt hjá þeim. Þeir tala um að Icesave-samningarnir séu óskýrir en mér finnst þeir vera skýrir. Reyndar neyddist hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson til þess að viðurkenna að gengisáhættan væri jú töluverð, jafnvel miklu meiri en nokkur maður mundi taka lán út á. Svo minntist hann á að menn vissu ekki hvað kæmi út úr eignum Landsbankans og kannski líka að það ætti eftir að fá úr því skorið hvort Ragnar H. Hall hefði rétt fyrir sér og Bretar eigi ekki að fá greitt úr innstæðutryggingarsjóðnum um leið og Íslendingar. Smáatriði? Það finnst sumum kannski en við skulum aðeins fara yfir þetta tölulega. Gengisáhættan hefur gert það að verkum að Icesave-skuldbindingin hefur hækkað um 53 milljarða á þessu ári, bara gengisáhættan ein og sér. Þá eigum við eftir að tala um þá vexti sem munu alveg 100% lenda á Íslendingum, hinir svokölluðu 45 milljarðar. Fjárlagahallinn var um 100 milljarðar þannig að í dag mætti í raun segja að fjárlagahallinn væri hugsanlega tvöfalt meiri en meiri hluti fjárlaganefndar kynnti hér fyrir um viku síðan og þótti sumum nóg um vegna þess að aldrei fyrr í sögunni hefur halli ríkissjóðs verið jafnsvakalegur.

Hv. þm. Birni Val Gíslasyni finnst lítið til alls þessa koma. Hann segist sjálfur hafa lagt á þetta mat. Þá vil ég minna á að færustu skipstjórar hlusta á veðurfræðingana, jafnvel fiskifræðingana. Þeir hlusta á sérfræðinga sem vara þá við aðsteðjandi hættu, t.d. ef veðurfræðingur kemur með þá spá að von sé á hvassviðri, óveðri, og það sé varasamt að vera á sjónum. En skipstjórar þeirrar skútu sem við köllum í daglegu tali þjóðarskútuna segja við þessa veðurfræðinga: Þið eruð bara rugludallar. Ég met það þannig með því að bleyta fingurinn og reka hann upp í loftið að væntanlega sé ekkert óveður á leiðinni. Ég hef reyndar engin sérstök rök fyrir því en byggi það á tilfinningunni. Það er alveg sama hvaða rök koma fram, hvaða hættur steðja að íslensku þjóðinni, alltaf skal ríkisstjórnin koma með mótrök, einhvern aðkeyptan sérfræðing — best væri að hann væri samfylkingarmaður eða vinstri grænn — sem segir að það leiki vafi á hvort þetta sé rétt. Ef það fæst enginn til þess að koma með gagnstætt álit, af því að menn eru yfirleitt tregir til að leggja æru sína að veði, segja menn bara: Ég held að þetta sé ekki rétt hjá honum, jafnvel þó að aðilinn sé sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Eitt er afar athyglisvert í þessu máli, vegna þess að nú eru það helstu rök stjórnarinnar að Mishcon de Reya, hin virta lögmannsstofa, hafi sagt að það væri ekki víst að Íslendingar mundu vinna hugsanleg málaferli við Breta og Hollendinga. Af því að þeir segja þetta verðum við að samþykkja, vegna þess að við gætum jú tapað og það væri hræðilegt. Þeir gleyma reyndar að geta þess að ekki nokkur lögmannsstofa, hvar sem er í heiminum, mundi segja við kúnnann sinn: Það er 100% víst og öruggt að þú munt vinna þetta mál, jafnvel þó að hún mundi segja: Líkurnar eru með ykkur í málinu. Það er reyndar þannig með álit Mishcon de Reya að þeir segja: Líkurnar eru allar Íslendinga megin, þið hafið bara samið þær flestar frá ykkur. Það er skelfilegt, ég mundi ekki láta nokkurn mann sjá hvernig staðinn hefur verið vörður um íslenska hagsmuni. Ég mundi gæta þess að þið eyðilegðuð ekki orðspor ykkar erlendis með því að sýna hvað þið eruð í rauninni vitlaus, ætla ég að leyfa mér að segja.

Sigurður Líndal lagaprófessor hefur í blaðagrein bent á að það hefði verið best að leysa þetta mál í þjóðréttarsamningum. Hann bendir á að þjóðréttarsamningar séu þannig að erfitt sé að fara með þá í þjóðaratkvæði. En hver hefur verið mesta gagnrýnin á þetta mál? Jú, þetta eru ekki þjóðréttarsamningar. Þetta eru samningar á einkaréttarlegum grunni og úr þeim verður leyst fyrir breskum dómstólum, samkvæmt breskum lögum, þ.e. ef Íslendingar hafa eitthvað við þá að athuga. Ef Bretar hafa eitthvað við þá að athuga geta þeir farið fyrir hvaða dómstól sem er, hvar sem er í heiminum. Þeir geta valið sér réttarfarsreglur og lögin sem á að túlka. Sanngjarnir samningar? Nei, kannski ekki. Það er athyglisvert að Sigurður Líndal segir einmitt í þessu viðtali — það hefur reyndar verið snúið út úr því og sagt að hann sé hálfpartinn að gefa í skyn að Icesave-deilan geti ekki farið í þjóðaratkvæði en ég er allsendis ósammála þeim fréttaskýringum vegna þess að hann segir nefnilega réttilega að Icesave sé einmitt ekki þannig mál og þess vegna heyri það undir aðrar reglur. Þess vegna á að fara með það í þjóðaratkvæði.

Ef við ímyndum okkur að þetta sé alþjóðadeila tveggja aðila erum við að tala um að annars vegar vegast á hagsmunir Íslendinga og hins vegar hagsmunir Breta og Hollendinga. Þannig ganga alþjóðadeilur fyrir sig. Annaðhvort tala menn fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar eða menn tala fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Það er bara þannig ef þetta er alþjóðadeila. Hér hafa stjórnarþingmenn talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Þeir geta svo haft þá skoðun að Íslendingum sé betur borgið með því að ganga algjörlega að hagsmunum Breta og Hollendinga, það er annað mál, en hvernig fá menn það út? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.

Í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar kom fram að nú lægi fyrir að engin hætta væri á því að stjórnarskráin hefði verið brotin. Hann fann það út vegna þess að Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen, Helgi Áss Grétarsson, og svo nefndi hann reyndar Davíð Þór Björgvinsson sem lét að því liggja í tölvupósti í einni eða tveimur línum að hann væri ekki sannfærður um að það væri verið að brjóta stjórnarskrána — en þarna nefndi hann þessa fjóra lögmenn af því að það hentaði og svo felldi hann dóminn: Þar með er útrætt um að stjórnarskráin hefur ekki verið brotin. Af hverju ekki að geta þess í umræðunni, svona til þess að gæta sanngirni, að Ragnar H. Hall, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, Sigurður Líndal lagaprófessor og Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmaður hafa allir komið fram og sagt opinberlega, með rökstuðningi meira að segja, að þeir telji töluverðar líkur á því að verið sé að brjóta stjórnarskrána? Ef við teljum þetta að gamni er staðan 5:4 fyrir þessa aðila. Við getum meira að segja núllað Helga Áss Grétarsson út vegna þess að hann er á háum launum hjá ríkisstjórninni. Það liggur fyrir. Hann hefur fengið greidda um eina milljón kr. fyrir aðstoð sína við gerð Icesave-fyrirvaranna, eða réttara sagt fyrir aðstoð sína við að eyða út þeim fyrirvörum sem Alþingi setti hér í lok ágúst.

Um það deilum við Björn Valur Gíslason ekki, vegna þess að Björn Valur Gíslason viðurkennir fúslega og segir að það sé bara hið besta mál að málið sé komið í hinn upphaflega farveg frá því að málið var lagt fram. Svo koma þingmenn eins og hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir sem segir: Bauð Steingrímur ekki á sínum tíma að stjórnarandstaðan kæmi að málinu? Tveimur dögum áður en hann lagði fram einhvers konar bón — sem ég reyndar fékk aldrei, hvað þá við í fjárlaganefnd — var hann spurður hér á hinu háa Alþingi hvernig gengi með Icesave-samningana. Svarið var eitthvað á þá leið að þetta væri óformlegt en engar formlegar viðræður ættu sér stað. Daginn eftir lágu Icesave-samningarnir fyrir fullbúnir og hann lýsti því yfir að þetta væri glæsileg niðurstaða. Einhver stærstu mistök í íslenskri stjórnmálasögu. Þar liggur kannski hundurinn grafinn vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra hefur varpað allri ábyrgð á núverandi ríkisstjórn. Steingrímur J. hefur kennt Sjálfstæðisflokknum um og þeirri ríkisstjórn sem var, hann nefnir reyndar aldrei Samfylkinguna á nafn en horfir fast í augun á hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvini G. Sigurðssyni. Mér hefur ekki einu sinni dottið í hug, jafnvel þó að ég sé ekki stuðningsmaður þessara flokka, að ganga svo langt að kenna einhverjum um sem á það ekki skilið. Þar liggur hundurinn grafinn, virðulegi forseti. Þegar farið hefur verið yfir málin frá a til ö liggur fyrir að ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni sem nú situr, á ríkisstjórn (Forseti hringir.) Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.