138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal endurtaka það sem ég sagði hér rétt áðan. Sigurður Líndal hefur bent á að þetta sé milliríkjadeila. Hann tekur fram að hér sé ekki um innanríkismál að ræða, eins og t.d. fjölmiðlafrumvarpið var og ágreiningur um það, heldur sé þetta milliríkjamál. Þar vegast á hagsmunir Íslendinga og hagsmunir Breta. Þeir sem hafa beitt sér fyrir því að íslenska þjóðin borgi Bretum og Hollendingum í botn og rúmlega það eru að tala fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Þetta sagði ég orðrétt. Ég nefndi ekki þau stóru orð sem hv. þingmaður sagði. Ég nefndi líka að það gæti vel verið, og ég vil halda því til haga, að sumir telji að það að ganga algjörlega að hagsmunum Breta og Hollendinga sé hugsanlega betra fyrir íslensku þjóðina. Ég sé þó ekki að það standist þegar farið er yfir gögn málsins.