138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni svarið við spurningu minni sem hann reyndar svaraði ekki að fullu. Hann svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans, hvort hann væri að brigsla stjórnarliðum um landráð eins og mér fannst hann gera þegar hann sagði orðrétt að stjórnarliðar hefðu talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli. Mér finnst mjög alvarlegt ef svo er og ég hvet hann til þess að sýna þann manndóm, það þarf ekki mikið til þess, að koma hingað upp og í það minnsta draga í land með þessi orð eða biðjast afsökunar á þeim eða standa þá við þau ef það er meining hans með þessum orðum.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði líka áðan að álit IFS Greiningar væri fyrsta og eina álitið sem tæki á áhættunni sem fylgir samningunum. Ég fletti nú bara í gögnum mínum sem ég hef hér á borðinu. Þar er ég með gögn sem taka á þessu máli sömuleiðis og hv. þingmanni á að vera fullkunnugt um, t.d. frá Seðlabankanum 21. október, 14. nóvember, 18. desember, 11. desember o.s.frv. Þau hafa öll verið lögð fram í fjárlaganefnd þar sem hv. þingmaður á sæti ásamt mér. Þessi gögn hafa verið þar til umræðu allan þennan tíma, hvert einasta. Áhættugreining frá IFS, jafnágæt og hún kann að vera, er því langt frá því að vera fyrsta og eina áhættugreiningin á þessum samningum sem við erum vonandi að fara að greiða atkvæði um og samþykkja á morgun. Ég skil ekki þennan málflutning að hv. þingmaður skuli halda því hreinlega fram, því að það eru fleiri gögn en frá Seðlabankanum. Ég minni á gögn frá Hagfræðistofnun, fjármálaráðuneytinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Gripið fram í.) sem liggja frammi og hafa legið frammi á borðum hjá fjárlaganefnd vikum og mánuðum saman. Ég vona að það sé ekki vegna þess að hv. þingmaður hafi ekki lesið (Forseti hringir.) þau gögn sem þar hafa legið frammi því að oft má ætla það af málflutningi hans. Þar má þau finna samt sem áður.