138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur verið spurt um hugsanleg gögn sem kunni að vera á sveimi og ættu að vera komin í hendur á stjórnarandstöðunni og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur beðið um í þessum ræðustól, ef ég man rétt. Mér vitanlega var einhverjum gögnum safnað saman sem fundust þessu máli tengd, eftir því sem mér skilst. Ég veit ekki alveg hvað er í þeim gögnum en þau komust í hendur á hv. þingmanni fyrr í dag og ég held að hann hafi verið að fara yfir þau og lesa. Hann lætur samflokksmenn sína og aðra þingmenn örugglega vita af því ef í þeim er eitthvað að finna sem hann telur málsins vert.

Að öðru leyti get ég upplýst að þessi merka lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hefur óskað eftir því að leitað verði eftir gögnum, ef þau kunna að finnast þar frekar. Ég veit ekki hvort það þarf að brjóta upp gólfið á lögfræðiskrifstofunni til að leita að þeim eða hvar þau eru en það hefur verið óskað eftir því og þau hljóta þá að berast ef þau eru til.