138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur auðvitað verið farið yfir marga þætti þessa máls í þeim umræðum sem hafa átt sér stað hér við 3. umr. Ég hef saknað þess að ekki hafi gefist meiri tími í þessari umræðu til að fjalla um einstaka þætti málsins, einstaka liði, því mjög mikið hefur komið fram af upplýsingum, m.a. milli 2. og 3. umr., sem ekki hafa verið ræddar hér nægilega ítarlega vegna þess að tilgangur umræðna í þinginu hlýtur auðvitað að vera rökræður um atriði sem kunna að skipta máli fyrir niðurstöðu málsins. Ég tel að í þessu máli hafi komið fram gögn sem vissulega skipta máli í því sambandi.

Ég hef m.a. saknað þess að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki farið efnislega í umræðuna af meiri krafti en raun ber vitni. Þeir hafa vissulega tekið meiri þátt í 3. umr. en 2. umr. og er það vel. Þetta á auðvitað að vera rökræða þannig að menn eiga að geta skipst á skoðunum. Hins vegar hafa hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þrátt fyrir þátttöku sína ekki farið mjög mikið út í einstök efnisatriði sem eru þó það sem við ræðum um.

Það er rétt að rifja upp og hafa í huga, án þess að ég ætli að fara í sögulega yfirferð, að í upphafi var málið í þeirri stöðu að fjármálaráðherra kom til þingsins og óskaði eftir óskilyrtri heimild til að veita ríkisábyrgð vegna þeirra samninga sem gerðir voru 5. júní við Hollendinga og Breta, skilyrðislausri ríkisábyrgð á þeim samningum sem þá lágu fyrir. Þegar í ljós kom að ekki var meiri hluti í þinginu fyrir því að veita slíka skilyrðislausa ríkisábyrgð tóku menn úr mörgum flokkum höndum saman og unnu saman að því að búa til það sem við höfum í þessari umræðu kallað fyrirvara eða skilmála, skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Það réð niðurstöðunni og má fullyrða að frumvarpið sem hér var til meðferðar í sumar hefði aldrei verið samþykkt ef þessir fyrirvarar hefðu ekki verið inni, það hefði ekki náð fram að ganga, ég held að það megi fullyrða það.

Það sem gerist í kjölfarið er að fram kemur að Bretar og Hollendingar geta ekki sætt sig við fyrirvarana eins og Alþingi setur þá fram og málið tekur að nokkru leyti nýja stefnu og fram er lagt nýtt frumvarp sem felur í sér verulegar breytingar á framsetningu og efni þeirra fyrirvara sem Alþingi samþykkti í lok ágúst. Helsta verkefni okkar hér í 3. umr., fyrir utan það að ræða málið almennt og réttmæti þess að veita ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga og annað þess háttar, er kannski að miklu leyti fólgið í því að meta hvort fyrirvararnir sem settir voru og fengu meirihlutastuðning hér á Alþingi í lok ágúst eru með nægilegum hætti tryggðir áfram í því frumvarpi sem nú liggur fyrir. Þetta skiptir máli vegna þess að skýrt kom fram við umræðuna í sumar að mjög margir þingmenn tengdu stuðning sinn við málið einkum þessum fyrirvörum. Skýrar yfirlýsingar komu um það frá einstökum þingmönnum, ég minnist sérstaklega yfirlýsinga ákveðinna þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gáfu það mjög skýrt til kynna og sögðu beint út bæði hér í þingsölum og í fjölmiðlum að þeir gætu ekki stutt frumvarpið nema vegna þess að fyrirvararnir væru komnir inn.

Þessir fyrirvarar eru því auðvitað mjög mikilvægir, en þegar við skoðum hvernig fyrir þeim hefur farið, þá er alveg ljóst að þeir hafa breyst verulega en það er álitamál að hve miklu leyti þeir halda gildi sínu. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum fært fyrir því mörg og ítarleg rök að fyrirvararnir séu í mörgum mikilvægum atriðum ekki lengur sú trygging sem þeim var ætlað að vera og hafa auðvitað verið, sérstaklega þegar við vorum að ræða málið hér við 1. og reyndar 2. umr. líka, eitt helsta umræðuefnið. Hins vegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir komið fram með afskaplega fátt til að styðja það sem þeir hafa haldið fram, að fyrirvararnir séu allir meira og minna í gildi. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þessu í þessari ræðu svona kannski sem viðleitni til að færa með mínu litla framlagi umræðuna að þessum þáttum og ég ætla að rifja upp nokkra af þessum fyrirvörum og velta fyrir mér hvernig fyrir þeim er komið.

Við getum skipt fyrirvörunum í tvennt, efnahagslega fyrirvara og lagalega fyrirvara. Ég ætla fyrst að víkja örfáum orðum að efnahagslegu fyrirvörunum. Aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa reyndar gert þeim ítarleg skil en til þess að gera langa sögu stutta er tvennt í sambandi við efnahagslegu fyrirvarana sem er augljóslega horfið og í sjálfu sér er ekki ágreiningur um að það sé horfið. Í frumvarpinu sem varð að lögum 28. ágúst kom skýrt fram að ríkisábyrgðin takmarkaðist við tímasetninguna 2024, það var skýrt. Slík tímamörk eru ekki fyrir hendi í dag heldur framlengist samningurinn sjálfkrafa eftir ákveðnum reglum og þar með er þessi endapunktur á ríkisábyrgðinni horfinn. Þetta er ljóst og um þetta er ekki ágreiningur.

Skiptir þetta máli? Já, þetta getur skipt heilmiklu máli. Það er hægt að reikna sig í þá niðurstöðu að Icesave-skuldbindingin verði að fullu greidd 2024, en það er líka hægt að reikna sig í það að hún nái allt til 2044 eða jafnvel lengur. Ég minnist þess að hafa einmitt séð tímasetninguna 2044 í áliti IFS Greiningar sem vísað var til nú fyrr í þessari umræðu. Því er ljóst að endapunktur ríkisábyrgðarinnar 2024 er horfinn.

Í öðru lagi varðandi efnahagslega fyrirvara þá var mikið upp úr því lagt og töluverð vinna lögð í það, sérstaklega af hálfu nefndarmanna í fjárlaganefnd og reyndar nefndarmanna úr efnahags- og skattanefnd líka, að móta fyrirvara sem ættu að tryggja það að greiðslur Íslendinga yrðu alltaf viðráðanlegar miðað við stöðu efnahagsmála hér á landi. Í því fólst að sett var ákveðið greiðsluþak, 4% til Breta og 2% til Hollendinga, af vexti landsframleiðslu eftir ákveðnum reiknireglum sem ég er ekki manna bestur til að fara út í. Þessi fyrirvari hefur náð inn í viðaukasamningana í mjög svo veiktri mynd, getum við sagt. Hann er vissulega þarna fyrir hendi, það er greiðsluhámark inni í viðaukasamningunum en það sem hefur breyst er að nú er komið ákvæði um það að burt séð frá þessu greiðsluhámarki og þar með burt séð frá vexti landsframleiðslu á viðmiðunartímabilunum er alltaf gert ráð fyrir að vextir séu greiddir.

Þarna er verulegur munur á. Sé miðað við þá reglu sem samþykkt var hér í sumar var mjög auðveldlega hægt að reikna sig í þá stöðu ef hér yrði lítill sem enginn hagvöxtur, að við greiddum lítið sem ekkert ef staða efnahagsmála væri slæm á Íslandi og ef við lentum í langvarandi alvarlegri kreppu mundum við ekki greiða neitt á meðan sú staða væri uppi. Samkvæmt breytingunni er vissulega tekið tillit til þess þegar kemur að greiðslum á höfuðstólnum en þegar horft er til vaxtanna skipta vöxtur landsframleiðslunnar eða samdráttur ekki máli, hvernig sem efnahagsmálin þróast hér verður alltaf um vaxtagreiðslur að ræða.

Vextir eru engin aukastærð í þessu sambandi því ljóst er miðað við öll þau gögn sem komið hafa fram í málinu að vaxtakostnaður verður verulegur. Þegar við verðum í þeirri stöðu árið 2016 að þurfa að byrja að greiða verða miklir uppsafnaðir vextir sem halda áfram að hlaða á sig vöxtum sem þarf að greiða. Enginn veit með vissu hversu háar þessar upphæðir verða en ég held að óhætt sé að fullyrða að þarna verði jafnvel um tugi milljarða að ræða á hverju einasta ári. Ég held að ekki sé óvarlegt að ætla það miðað við þau gögn sem liggja fyrir, tugir milljarða. Menn hafa reiknað það með mismunandi hætti og komið fram með mismunandi sjónarmið en alla vega fara tugir milljarða í vaxtagreiðslur þannig að þetta verður tilfinnanlegt. Ef við borgum bara vextina gengur náttúrlega ekkert á höfuðstólinn þannig að samspil þessara tveggja þátta getur leitt til þess að mjög lengist í lánunum og þarna verði um að ræða þungbæra, efnahagslega byrði fyrir okkur til langs tíma. Við skulum hafa í huga að báðir þessir efnahagslegu fyrirvarar voru auðvitað hugsaðir sem öryggisventlar og ég sé ekki betur en að þessir tveir mikilvægu öryggisventlar hafi verið teknir úr sambandi, a.m.k. mikið veiktir.

Svipuð sjónarmið eiga að mínu mati við um lagalegu fyrirvarana. Þeir eru af margvíslegu tagi, sumir eru raunhæfir og skipta máli, aðrir skipta minna máli. Ég held að óhætt sé að fullyrða að svokallaður Ragnars H. Halls-fyrirvari sé kannski mikilvægastur þegar við horfum til þess að meta þetta í krónum og aurum vegna þess að það getur skipt mjög miklu máli hvernig reglur verða fyrir hendi við úthlutun úr þrotabúi Landsbankans, það getur skipt gríðarlegu máli svo nemur jafnvel hundruðum milljarða. Ekkert sem komið hefur fram í þessu máli frá því að það var lagt fram í október hefur hrakið það mat Ragnars H. Halls hæstaréttarlögmanns, sem fyrstur manna benti á þetta vandamál og lagði fram ákveðnar lausnir í því sambandi en vill reyndar sjálfur víkjast undan þeim heiðri að eiga fyrirvarann að öllu leyti, að fyrirvarinn sem við hann var kenndur hafi verið tættur niður. Ekkert hefur komið fram sem hrekur það. Þannig fór með þann mikilvæga fyrirvara.

Varðandi þann lagalega fyrirvara sem greina má í 2. gr. frumvarpsins má deila að verulegu leyti um hvort hann skipti máli þegar til kastanna kemur, hvort hann hafi mikla þýðingu. Það verður að hafa í huga að hann byggir á mörgum fyrirvörum sem inn í hann eru byggðir og eru orðin „ef“ og „ef eitthvað færi með þessum hætti kynni þetta að vera svona o.s.frv.“ mikið notuð, hv. þingmenn þekkja þetta. Engu að síður er fyrirvarinn þarna en ef á hann reynir hefur hann ekki raunverulegt lagalegt gildi, ekki raunveruleg réttaráhrif, önnur en þau að Alþingi áskilur sér rétt til þess að Ísland óski eftir viðræðum við Breta og Hollendinga en ekkert í samningunum gerir það að verkum að Hollendingum og Bretum sé skylt að taka þátt í þeim viðræðum. Það er nú allur fyrirvarinn sem í því felst.

Í gömlu lögunum frá því í lok ágúst var þó fyrir hendi ákvæði sem áskildi Íslendingum rétt til þess að endurskoða ríkisábyrgðina, taka hana upp og breyta henni eða fella hana niður ef upp kæmu þau atvik sem 2. gr. vísar til, en það er líka horfið. (Forseti hringir.) Fleiri atriði mætti nefna, ég hef ekki tök á því að gera það í þessari ræðu en fæ það væntanlega síðar við þessa umræðu. Það sem skiptir höfuðmáli á þessari stundu er að fyrirvararnir sem lagt var upp með og lögð þessi mikla áhersla á í sumar eru lítilvægir (Forseti hringir.) í dag, hafa litla þýðingu og munu veita okkur litla vernd.