138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þarf að segja að okkur greinir nokkuð á um meðhöndlun fyrirvaranna og túlkun á þeim, m.a. hvað varðar endapunktinn meinta sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haldið fram að hafi falist í fyrirvörunum og að ábyrgðin hafi átt að falla niður 2024. Um leið túlka þeir fyrirvarana með þeim hætti að við tilteknar aðstæður gæti farið svo að hvorki komi til greiðslu nokkurra vaxta né nokkurrar krónu af höfuðstólnum. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort honum sé alvara með þeirri túlkun að hægt sé í máli sem þessu að semja við gagnaðilana um lyktir málsins með þeim möguleika að aldrei verði greitt neitt, hvorki af höfuðstól né vöxtum. Eða þykir hv. þingmanni ekki að ætla megi að nauðsynlegt sé að standa skil á einhverju til gagnaðilanna til að ljúka þessum málum?