138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom nokkuð að kjarna málsins. Ég segi það sem svar við þessari spurningu, svo ég noti bara það orðalag sem er notað í frumvarpstextanum sjálfum, að fullkomin óvissa er um hvaða skuldbindingar hér er um að ræða eða hvort um er að ræða skuldbindingar sem bindi Ísland að lögum til þess að greiða eitthvað til Breta og Hollendinga. Það er bara alls ekki klárt. Það er klárt að Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sem er sjálfseignarstofnun, ber ábyrgð á þeim greiðslum eftir því sem hann hefur magn til en það er líka klárt að ekkert í lögum kveður á um ríkisábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og alveg ljóst að Landsbanki Íslands hf. starfaði ekki undir ríkisábyrgð.