138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nokkuð fróðleg umræða því að ég átti orðastað við samflokksmann hv. þingmanns hér fyrr í dag um hans mat á því á hverju við Íslendingar þyrftum að standa skil. Það var enginn ágreiningur um að til þess að ljúka málinu farsællega þyrftum við að standa skil á höfuðstólnum og sömuleiðis þyrftum við að standa skil á vöxtunum. Sá hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins var ósáttur við vaxtaprósentuna og hefði viljað hafa hana annars konar, sem og hafa samninginn þjóðréttarlegs eðlis en ekki einkaréttarlegs eðlis og hafði ýmsar aðrar athugasemdir við samninginn.

Ég er að reyna að átta mig á því, virðulegur forseti, og lái mér hver sem vill, hver sé skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu efni. Er það skoðun þeirra að til þess að ljúka þessu máli þurfum við að standa skil á þeim höfuðstóli sem lýtur að lágmarksinnstæðutryggingunum og auk þess væntanlega einhverju vaxtaendurgjaldi á þeim tíma sem við fáum við ráðið? Eða er það skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að við eigum ekki að borga neitt og bara að skella í lás?