138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja mig um lagalega ábyrgð er ég þeirrar skoðunar að ekki sé fyrir hendi lagaleg skuldbinding sem geri að verkum að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Það er mín persónulega skoðun og ég minni á að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum í ferli þessa máls stundum komist að ólíkum niðurstöðum. Til dæmis greiddi ég atkvæði gegn frumvarpinu í sumar 28. ágúst á meðan mjög margir flokksfélagar mínir sátu hjá vegna þess að þeir töldu að þeir fyrirvarar sem þarna voru komnir inn gerðu málið svo miklu betra en það var í upphafi að þeim fannst óviðeigandi að greiða atkvæði gegn því. Ég var ósammála því og hef hugsanlega aðra sýn á þessi mál en ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Við getum verið sammála t.d. varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir að við eigum að segja nei en við getum komist að þeirri niðurstöðu með mismunandi hætti á mismunandi forsendum. Enginn hefur þó sýnt mér fram á það með skýrum lögfræðilegum hætti að íslenska ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða beri ábyrgð á skuldum Landsbanka Íslands. Síðan getum við verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt, þegar jafnóvenjulegar og afbrigðilegar aðstæður koma upp eins og síðasta haust, að reynt sé að fara samningaleið, að það sé reynt að gera samninga til þess að greiða fyrir úrlausn þeirra mála sem þarna koma upp. Það felur þó ekki í sér að menn samþykki hvaða samninga sem er.