138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér ekki svarað þessu öðruvísi en að það kallaði auðvitað á svör þegar ég óskaði eftir þeim — ég veit ekki hvort það var kannski ónákvæmni að biðja um öll gögn í málinu því þá fékk ég auðvitað öll gögn og gömlu gögnin líka. Það þarf kannski einhvern tíma til þess að fara yfir það hvaða gögn eru ný en það er vegna þess að ég óskaði eftir því að fá öll gögnin fram.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson getur betur upplýst en ég hvað gerðist á haustmánuðum varðandi Heritable. Það kemur aftur á móti skýrt fram þegar samningarnir voru lagðir fram í fyrstu lotunni og með þeirri greinargerð sem þar er að því var fylgt mjög hart eftir af samninganefndinni að menn reyndu að sækja hryðjuverkalögin og aðgerðir Breta í Bretlandi. Það kemur allt saman fram í því nefndaráliti. Vandamálið við málið hjá okkur á þessu stigi er að við höfum fjallað um það í sex til átta mánuði og við erum farin í hring. Við erum farin að kalla eftir upplýsingum um sömu málin aftur. Það er vandamálið í sjálfu sér ef við setjumst alltaf aftur og aftur og förum yfir hvað við vorum búin að segja eða gera áður.

Ég bið hv. þingmann að upplýsa mig um hvað gerðist varðandi Heritable-bankann vegna þess að ég var að vísu í stjórnarmeirihluta en ég var ekki formaður fjárlaganefndar á þeim tíma heldur formaður félags- og tryggingamálanefndar. Hv. þingmaður var aftur á móti formaður utanríkismálanefndar á þeim tíma þannig að hann gæti eflaust upplýst mig um hvað gerðist á þeim tíma. Þetta fjallar að mestu leyti um þetta tímabil, það sem við höfum verið að nefna hér. Ég er að tala um þessi gögn. Það sem verið var að benda á í mars eru tilvitnanir í þessi gögn sem voru þarna áður, það sem ég hef séð af þessu. Hv. þingmaður verður að svara þessu fyrir mig.