138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hálfsúrrealískt að hlusta á hv. formann fjárlaganefndar lesa upp úr þessu skjali eða fara yfir það eins og þetta sé bara hvert annað skjal sem skipti engu verulegu máli og í því sé ekkert nýtt. Það er ekki að ástæðulausu að menn eru búnir að vera á nálum í þinghúsinu um alla ganga síðustu tvo klukkutímana. Það sem hér kemur fram er með stökustu ólíkindum.

Ég held að óhætt sé að segja að ríkisstjórn hvaða Evrópulands sem er sem væri staðin að því að hafa falið svona upplýsingar eftir að hafa verið marginnt eftir því hvort allt væri örugglega komið fram er lýtur að nákvæmlega þessum hliðum málsins — hún sæti ekki lengi. Ég geri ráð fyrir því að menn ætli sér ekki að halda atkvæðagreiðslu í fyrramálið þegar búið er að boða í þessum gögnum að von sé á frekari upplýsingum, m.a. upplýsingum sem sérstaklega er tekið fram í þessu skjali að menn muni vilja kynna sér enda geti þau varpað betra ljósi á stöðu málsins og séu þess eðlis að Alþingi muni vilja kynna sér þau áður en tekin er endanleg ákvörðun í þessu máli. Hér er farið yfir ýmis gögn sem hafa ekki birst áður þrátt fyrir, eins og ég nefndi áðan, að margsinnis hafi verið kallað eftir því, sérstaklega eftir að upprunalegt álit Mishcon de Reya fannst undir stól í fjármálaráðuneytinu. Þá var þrætt fyrir að þar væri nokkuð til viðbótar.

Síðan kemur reyndar fram hér að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson hafi fengið sérstaka kynningu á því sama skjali sem síðan fannst í fjármálaráðuneytinu og hæstv. utanríkisráðherra kannaðist þá ekkert við. Reyndar er tekið fram að úr því hafi verið teknar upplýsingar sem formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, hafi ekki viljað að fylgdu í pakkanum til hæstv. utanríkisráðherra. Þetta og fleira í þessu er með slíkum ólíkindum að ég vona svo sannarlega (Forseti hringir.) að þessari ríkisstjórn detti ekki til hugar að halda atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um þetta mál í fyrramálið.