138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan hef ég einungis haft tækifæri til að hlaupa í gegnum þetta álit. Mér sýnist þó eigi að síður að í þessum 4. kafla, sem ég tel burðinn í þeim gögnum sem hér komu fram í kvöld, sé það álit Mishcon de Reya að hægt sé að reka mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu en þó einungis á þeim grundvelli að einstaklingur reisi málið og andlag þeirrar kröfu sé að viðkomandi einstaklingur hafi tapað eignum vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Og það er útskýrt í þessum gögnum að það geti t.d. verið ef einstaklingur hefur tapað verðmætum í formi hlutabréfa sem hafa verðfallið eða að engu orðið. (Gripið fram í.) Það þýðir einfaldlega að þessi lögfræðistofa hafi komist að sömu niðurstöðu og fyrri ríkisstjórn og á þeim grundvelli var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar tekin (Gripið fram í.) að láta kanna þetta til þrautar. Eins og ég skil þetta — það getur vel verið að aðrir skilji það öðruvísi — tel ég að það sé ekki hægt af hálfu neinnar ríkisstjórnar að semja af sér rétt sem einstaklingur hefur. Ég er þeirrar skoðunar að þessir samningar sem liggja hér undir í umræðunni þessa dagana geti ekki falið það í sér (Gripið fram í.) að réttur sem einstaklingur hefur sé tekinn (Gripið fram í.) burt af hálfu ríkisstjórnar, svo það komi alveg skýrt (Forseti hringir.) fram. — Þegar ég er spurður þeirrar spurningar hér í ræðustól skal ég svara því, hv. þingmaður, ég hef alltaf sagt satt í þessu máli (Gripið fram í.) og hv. þingmaður veit það vegna þess að hann trúði mér í hinni fyrri lotu þessa máls: Nei, ég fékk aldrei kynningu á þessu. Aldrei. (Gripið fram í: Þá er það …)