138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nú heyrt einhver bestu meðmæli með þessari bresku lögfræðistofu, Mishcon de Reya, úr munni hæstv. ráðherra áðan þegar hann sagði að hún hefði komist að sömu niðurstöðu og fyrri ríkisstjórn í þessum málum, sem var óskeikul um margt, enda átti hæstv. ráðherra sæti þar í og ég held að hún hafi unnið mörg góð verk, en gengið misjafnlega með önnur. Engu að síður og spauglaust er þetta mál þess eðlis, og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra fallist á það sjónarmið mitt, að hér sé um slíkt mál að ræða að það gefi tilefni til að fara betur í og ígrunda fleiri þætti í þessum efnum.

Mér finnst það alvarlegt, og skal alveg viðurkenna það heiðarlega, sem kemur fram í áliti Mishcon de Reya þar sem sagt er að formaður íslensku samninganefndarinnar hafi hlutast til um það að ákveðnar upplýsingar í máli séu teknar út áður en kynning er útbúin í hendur hæstv. ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar, í þessu tilfelli hæstv. utanríkisráðherra, mér finnst það alvarlegt og gefi tilefni til að farið sé yfir það mjög gaumgæfilega. Ég hef enga trú á öðru en að (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra sé sömu skoðunar. Mér finnst hann hins vegar grunsamlega vel upplýstur um þennan þátt málsins, en ég vænti þess að það sé í ljósi þeirrar gríðarlega miklu og góðu reynslu sem hann fékk í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á síðasta kjörtímabili.