138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það ætlar lengi að komast goluþytur ofan í þetta vatnsglas. Ég tel að það sé mikill misskilningur að hér sé eitthvað nýtt á ferð eða einhver mikil tímamót í málinu. (Gripið fram í.) Það er gamalkunnugt að hér sé uppi sá áróður að hagsmuna Íslands hafi verið slælega gætt eða reynt sé að leyna einhverjum gögnum. Það skyldi ekki vera að fróðlegast væri að sjá hvernig gögn málsins voru meðhöndluð frá því í október og fram í janúar og það skyldi ekki vera að obbinn af þeim gögnum sem Mishcon de Reya telur sig geta sent til viðbótar þeim sem þegar hafa komið þaðan séu gögn frá þeim tíma, (HöskÞ: Rangt.) lögfræðiálit frá Lovells, upplýsingar um umræður í breska þinginu og annað í þeim dúr. (HöskÞ: Rangt.) Það er mikilvægt að árétta (Gripið fram í.) að þau svokölluðu nýju gögn sem nú eru að koma frá lögfræðistofunni Mishcon de Reya eru gögn sem lágu þar og voru ekki til í skjalasöfnum á Íslandi. Það er staðreynd málsins. Hér er verið að senda frá stofunni gögn sem hún hafði í fórum sínum vegna aðkomu sinnar að málinu.

Mishcon de Reya er ein af þremur eða fjórum lögmannsstofum sem unnið hafa fyrir íslensk stjórnvöld á mismunandi tímum í þessu máli. Fyrst var það lögfræðistofan Lovells, reyndar fyrst Mishcon de Reya um tíma í október og nóvember. Síðan vann lögfræðistofan Lovells gríðarmikið og dýrt lögfræðiálit fyrir fyrrverandi ríkisstjórn sem sú ríkisstjórn notaði sem réttlætingu þess að höfða ekki mál vegna setningar Breta á hryðjuverkalögum. Það var boðað með fréttatilkynningum 6. og 9. janúar sl. Niðurstaða þeirrar lögmannsstofu var að hverfandi líkur væru á því að íslenska ríkið gæti unnið mál og samdóma álit lá fyrir frá ríkislögmanni, lögfræðingum utanríkisráðuneytisins og fleiri aðilum innan Stjórnarráðsins.

Í framhaldinu boðar þáverandi ríkisstjórn að hún muni hins vegar styðja bæði skilanefnd Kaupþings og skilanefnd Landsbankans kjósi þær að höfða sjálfar mál vegna eigin mála í Bretlandi. Þá þegar eru málin komin í þann farveg að íslensk stjórnvöld ætla ekki í mál en það er í höndum skilanefnda bankanna ef þær telja í þágu hagsmuna sinna að höfða mál vegna þess hvernig Singer & Friedlander var tekið niður og vegna þess hvernig Heritable-bankinn var meðhöndlaður. Þessi lögfræðiálit lágu öll fyrir þegar Mishcon de Reya kom um stuttan tíma í marsmánuði sl. að málinu til að vinna að einum afmörkuðum þætti þess. Og hver var hann? Tillögurnar um það hvernig nýta mætti eignir Landsbankans í uppgjör á Icesave-reikningunum. Vinna var keypt af stofunni. Hún var ekki beinlínis ókeypis heldur. Ætli það hafi ekki kostað 90.000 pund, nokkurra daga vinna þeirrar lögmannsstofu í þeim efnum ofan í 200 millj. kr., ef ég man rétt, sem álitið frá Lovells kostaði. (Gripið fram í: Bretar greiddu …) Eftir það var lögfræðistofan Ashurst fyrst og fremst íslenskum stjórnvöldum til ráðuneytis í síðari hluta ferlisins. Þau skjöl sem voru skráð í gagnagrunn samninganefndarinnar og fjármálaráðuneytisins og hafa jafnóðum gengið til rannsóknarnefndar Alþingis voru öll send til Alþingis og yfirleitt öll birt á vefnum island.is nema tvö sem fundust við ítarlegri leit í gær og hafa nú verið send (Gripið fram í.) fjárlaganefnd — og hver voru þau? (Gripið fram í.) Það var bréf frá því í febrúar þar sem stofan kynnir sig og býður fram þjónustu sína og það var bréf frá því í mars þar sem hún upplýsir um kauptaxta sína. (Gripið fram í.) Þetta er það sem fyrir liggur í málinu og þó að stofan geti tínt til gögn sem hún hefur greinilega fengið aðgang að frá öðrum vegna vinnu fyrir íslensk stjórnvöld í október, nóvember og desember 2008 bætir það litlu við núverandi stöðu þessa máls.

Veruleikinn er sá að meginefni þessa máls liggur skýrt fyrir og það er þaulrætt. Menn geta lagst endalaust í að rekja skjöl frá forsögulegum tíma í þessum efnum, þar á meðal og ekki síst væri mjög fróðlegt að velta við hverjum steini við meðferð málsins frá því í október og fram í janúar. (Gripið fram í.) Það breytir ekki því sem fyrir liggur og er til afgreiðslu á Alþingi. Það eru tilteknir samningar um að ljúka þessu máli. Þessi skjöl breyta þeim ekki. Sagnfræðilega og pólitískt kann að vera (Gripið fram í.) áhugavert að velta því fyrir sér (Gripið fram í: … ekki séð gögnin.) í samhenginu hver samningsstaðan var, hver vígstaðan var, við hvað var að eiga. Það er annað mál, en það breytir ekki samningsniðurstöðunni sem Alþingi þarf að taka afstöðu til og hefur þaulrætt og ég sé ekki að menn bæti sig (Gripið fram í.) mikið í þeim efnum með því að reyna enn einu sinni að þyrla upp (Gripið fram í.) moldviðri í þessu máli. (Gripið fram í.) Það er ekkert nýtt hér á ferð. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt mál að prenta út alla þessa skjalabunka ef mönnum líður betur með það en ég spái mönnum því að (Forseti hringir.) þeir muni fátt nýtt finna í þeim.