138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um virðingu fyrir Alþingi áðan, ég bað um virðingu fyrir íslensku þjóðinni, ég bað um virðingu fyrir þeim embættum sem ákveðnir aðilar gegna í þessum sal. Hvernig er hægt að koma fram með þessi mál enn á ný, leyniskjöl, og segja að það sé allt í fínu lagi? Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra einu sinni enn komið fram og sagt að málið sé í himnalagi? Hvernig má þetta vera? Hæstv. fjármálaráðherra er að tala um að við séum stödd í einhverri forsögulegri umræðu. Ég held á plaggi frá 29. desember 2009. Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra farið fram með þetta mál með þessum hætti?

Mig langar að spyrja hann að lokum um það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra. Það kemur fram í þessu áliti að hæstv. utanríkisráðherra hafi setið glærukynningu í London (Forseti hringir.) þann 31. maí 2009. Hæstv. utanríkisráðherra neitar því. (Forseti hringir.) Hvort hefur ráðherrann rétt fyrir sér eða lögfræðistofan eða hefur hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) einhverjar upplýsingar um það hvaða ráðherra í ríkisstjórninni sat þessa kynningu?