138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri löngu farinn á taugum og kominn í gröfina (Gripið fram í.) ef ég hefði ekki reynt að halda ró minni í gegnum þessa umræðu. Aftur og aftur og aftur frá því í vor hafa himinn og jörð verið að farast yfir einhverjum nýjum ósköpum og stórtíðindum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa uppgötvað. (Gripið fram í.) Smátt og smátt hefur það flest hljóðnað [Háreysti í þingsal.] og menn hafa þurft nýja og nýja hluti af þessu tagi til að blása upp í málinu. (Gripið fram í: Já, já.)

Að sjálfsögðu hefði verið ágætt að menn hefðu farið í tæmandi gagnasöfnun frá öllum þeim aðilum sem að þessu máli hafa komið frá byrjun, (Gripið fram í: Ætlarðu …?) t.d. lögmannsstofunum sem unnu fyrir fyrri ríkisstjórn (Gripið fram í.) til að koma því skjalasafni í lag. (Forseti hringir.)

Ég bara endurtek það, herra forseti, að gögn úr sögu málsins af þessu tagi breyta ekki grundvellinum sem við erum hér með, hinni samningsbundnu niðurstöðu sem liggur fyrir að taka afstöðu til. (Gripið fram í.) Þau eru auðvitað hluti af sögu málsins, (Forseti hringir.) það er alveg rétt, en hversu lengi ætlum við að vera í þeirri leit? Hversu lengi ætlum við að vera í henni (Forseti hringir.) og hvernig ætlum við tryggja að við róum þá (Forseti hringir.) fyrir hverja vík?