138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er haldinn þeirri meinloku að þetta mál snúist um hann. (VigH: Rétt.) Það er gríðarlega mikill misskilningur, þetta snýst um framtíð íslensku þjóðarinnar. Það er ekki hlutverk hæstv. fjármálaráðherra, þrátt fyrir allan hans hroka, að meta það hvernig við leggjum þetta mál upp eða hvernig við metum þau gögn sem hér eru. Það er ekki þannig.

Meira að segja núna svaraði hæstv. fjármálaráðherra því ekki einu sinni hvort hann ætlaði eitthvað að upplýsa það sem hér kom fram. Það er alvarlegt mál ef það hefur verið hugmyndin eða það verið framkvæmt af aðalsamningamanni hæstv. fjármálaráðherra að halda gögnum leyndum fyrir hæstv. utanríkisráðherra, það er alvarlegt mál. Það ætti að vera kappsmál hverjum stjórnmálamanni, ég tala nú ekki um hæstv. ráðherra, að upplýsa slíkt.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann hefði áhuga á því. Hann svaraði því ekki einu sinni þannig að ég spyr hann aftur, virðulegi forseti, hvort hann hafi áhuga á því (Forseti hringir.) að upplýsa þetta mál. Ég vil ekki fá að vita um hans persónulegu hagi í tengslum við þessi mál, það (Forseti hringir.) kemur þessu máli bara nákvæmlega ekki neitt við.