138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er á mælendaskrá og mér skilst að einn hv. þingmaður sé á undan mér. Þetta eru síðustu fimm mínúturnar sem ég hef til að tjá mig um þetta mikla og stóra mál, stærsta mál Íslandssögunnar. Í kvöld hefur komið hér fram að hingað sé að berast mikið af nýjum gögnum í þessu máli sem hæstv. fjármálaráðherra reyndar túlkar svo að skipti ekki máli og hafi ekkert nýtt að geyma.

Á þingi er ég eingöngu bundin við mína sannfæringu og ég læt engan segja mér hvað mér á að finnast um þetta stærsta mál Íslandssögunnar. Ég hef kynnt mér gögn málsins og áskil mér rétt til að fá tíma til að kynna mér gögn málsins áður en ég held lokaræðu mína í þessu máli og áður en ég greiði atkvæði í því. Þess vegna tel ég augljóst, frú forseti, að ekki sé annað hægt en að fresta þessum fundi og gefa okkur þingmönnum færi á að kynna okkur þessi gögn þar sem það kemur fram í þessu bréfi sem var lagt fram í fjárlaganefnd frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya í kvöld (Forseti hringir.) að þessi skjöl sem eru á leiðinni gætu varpað nýju ljósi (Forseti hringir.) á Icesave-málið. Það kemur fram í bréfi þeirra.