138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta mál var hneyksli og er orðið að stórhneyksli núna eftir þær upplýsingar sem hafa birst okkur í dag. Það er alveg ljóst af þeirri ringulreið sem er í gangi. Hér hafa ráðherrar allt í einu birst sem ekki hafa sést í allri umræðunni dögum saman og menn eru allt í einu byrjaðir að upplifa mikla spennu á meðal og innan stjórnarflokkanna, og það ekki að ástæðulausu. Þess vegna vona ég að forseti þingsins svari okkur núna þeirri spurningu hvort ekki verði gert hlé á þingstörfum meðan farið verður yfir málið og það upplýst þannig að við getum tekið afstöðu í þeirri afdrifaríku atkvæðagreiðslu sem bíður okkar á morgun. Þess vegna fer ég fram á svör frá hæstv. forseta og líka fram á það að hann sýni fram á sjálfstæði þingsins, reisn þess, hann sýni dug og djörfung gagnvart framkvæmdarvaldinu og sýni sjálfstæði af hálfu þingsins (Forseti hringir.) gagnvart framkvæmdarvaldinu og geri það sem hann gerði m.a. fyrir jól, að koma (Forseti hringir.) hérna fram sem forseti allra þingmanna, stjórnar sem stjórnarandstöðu.