138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í ljósi þessara upplýsinga finnst mér fráleitt að halda þessum fundi áfram meðan óljóst er hvað er að gerast á þessum fundi formanna flokkanna. Það hefur verið gert hlé á þingfundi af minna tilefni, og enginn skaði skeður þó að við gerum hlé á þingfundi, þótt ekki væri nema korter, 20 mínútur, hálftíma. Hvaða skaði mögulega gæti hlotist af því?

Kjarni málsins er að nýjar upplýsingar eru að koma fram í þessum töluðu orðum. Það eru að koma fram nýjar upplýsingar núna. Þingmenn verða að geta metið það, þeir verða að geta kynnt sér þessi gögn, þeir verða að geta metið hvort þeir telja það skipta máli. Þeir verða að geta notað það í ræðum sínum og ég tek eindregið undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að við þingmenn erum í fráleitri stöðu að þurfa hugsanlega að halda okkar síðustu ræðu um þetta mál án þess að hafa haft tök á að kynna okkur þau gögn sem fyrir liggja í málinu eða eru hugsanlega á leiðinni, (Forseti hringir.) eru að koma í hús núna. (VigH: Heyr, heyr.)