138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er orðin alveg óskaplega leið á því að það sé logið að mér hér í þingsal. Maður hefur upplifað hér í kvöld að menn hafa komið í ræðustól og fullyrt að öll gögn málsins hafi ítrekað verið lögð fram. Svo kemur í ljós á þessum ótrúlega fundi hjá fjárlaganefnd að svo er ekki, alla vega þrjú skjöl hafa enn ekki verið lögð fyrir þingmenn.

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að það samkomulag sem var gert hér á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem forseti Alþingis hafði forgöngu um og var undirritað, þar sem lagt var fyrir hvernig ætti að standa að þessari 3. umr. sé í fullkomnu uppnámi og að þeir sem eru flutningsmenn nefndarálits, þar á meðal ég, eigi nú rétt á því að fara upp (Forseti hringir.) eins oft og ég vil í fimm mínútur. (Forseti hringir.) Ég legg því bara til að frú forseti fresti fundi strax þannig að hægt sé að koma þessu máli á hreint, hvort við fáum að sjá þessi gögn eða ekki. Annars get ég (Forseti hringir.) ekki litið öðruvísi á en að samkomulagið við stjórnarandstöðuna hafi verið rofið.