138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef ákveðið að taka hér til máls um fundarstjórn forseta, þó að mér sé alls ekki ljúft að gera það, en ég fylgdist með umræðunum í sjónvarpinu og áttaði mig á því hvað var á seyði og ákvað að rjúka hingað niður eftir af því að mér eiginlega bara ofbýður það sem er að gerast. Ég hef ekki einu sinni haldið mína 15 mínútna ræðu í þessu máli í 3. umr. Ég talaði við 2. umr. en ég er ekki búin með löngu ræðuna mína við þessa umræðu og hafði tekið mig út af mælendaskrá. Það var búið að semja um þetta mál og ég hugsaði með mér: Ég þarf ekkert endilega að fara yfir þau atriði sem ég ætlaði að fara yfir. En það er orðinn algjör forsendubrestur og nú langar mig til að tala.

Ég er því búin að setja mig á mælendaskrá og ætla að fara hér ítarlega yfir þetta nýja bréf sem er komið af því að mér blöskrar það sem stendur í því. Það er algjörlega ljóst að það er forsendubrestur á ferðinni. Nú er upplýst að það eru nokkur skjöl, líklega átta skjöl, sem við höfum ekki séð sem geta haft áhrif á málið og þessi lögmannsskrifstofa mælir með því að þau verði skoðuð (Forseti hringir.) áður en gengið verði frá málinu. Hér er því um forsendubrest að ræða, virðulegur forseti, og ég tel að ekki sé hægt að halda hér fundi áfram eins og ekkert sé. (Forseti hringir.) Það verður með einhverjum hætti að leysa þetta mál.