138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa farið fram á að hlé verði gert á þessum fundi þar til einhver niðurstaða kemst í þetta mál. Bréfið sem við höfum fengið frá Mishcon de Reya er náttúrlega algjörlega stórfurðulegt. Í þessu bréfi, frú forseti, kemur m.a. fram að formaður samninganefndar Íslands, Svavar Gestsson, hafi tekið þá ákvörðun að taka ákveðinn hluta málsins út úr kynningu sem ætluð var hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að sá hluti væri pólitískt viðkvæmur og mætti ekki fréttast til breskra stjórnvalda. Treysti formaður nefndarinnar ekki hæstv. utanríkisráðherra til að halda trúnað um þær upplýsingar sem þar voru? Hvað á að lesa út úr þessu öllu saman?

Það er alveg ómögulegt fyrir okkur, frú forseti, að halda áfram umræðu við þessar aðstæður. Það væri eðlilegt að við gerðum hlé á þessum fundi þar til einhver niðurstaða er komin (Forseti hringir.) í þetta mál á fundi formanna.