138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé dæmigert fyrir þetta mál að tala um að ég sé að gera lítið úr einhverju. Ég hef talað fyrir því að við fengjum gott álit frá Mishcon de Reya. Það sem gekk fram af mér var það sem kemur fram í bréfi frá þeim, að þeir séu hugsanlega með einhver viðbótargögn í málinu og hafi sem sagt sent mér bréfið sem stjórnanda fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga en með ekkert ákveðið í huga. Þeir hafa ekki getað bent á eitt einasta atriði en þeir eru tilbúnir að athuga hvort eitthvað annað sé í tölvupóstunum. Er ekki verið að snúa hlutunum ansi mikið á haus?

Stofunni sem ráðin var til þess að vinna ákveðið verk var falið að koma með öll þau gögn sem hún fyndi og hún skilaði þeim á 86 blaðsíðum. Hún átti að skila á miðvikudegi en skilar á laugardegi. Þarf að tala um eitthvað fleira í þessu máli? Við getum kallað eftir öllum tölvupóstum frá öllu haustinu því að megnið af gögnunum sem komu eru frá Lovells, eins og ég sagði, sem fyrrverandi ríkisstjórn vann að. Við getum fengið öll þessi tölvusamskipti. (Forseti hringir.) Hvenær ætla menn að ljúka þessu máli?