138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið við andsvari mínu. Ég hef heldur engan áhuga á því að taka þátt í einhverjum slíkum leik og hef lagt mig fram um að sigla frekar hinn dýpri sjó í þessu máli en að sigla alltaf með fram ströndinni. Ég hefði álitið að í þessu máli sem við ræðum hér hefði okkur borið betur að landi við gæslu þjóðarhagsmuna ef við hefðum fengið rýmri tíma, betri starfsskilyrði í seinni hluta þeirra átaka sem staðið hafa um þetta mál. Þetta snýst um gæslu þjóðarhagsmuna og það er alveg ljóst í mínum huga samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið að það eru ákveðin átök í íslenskri stjórnsýslu sem segja mér að við hefðum getað staðið okkur betur.

Það má alltaf segja svo að við hefðum getað gert þetta og hitt en í mínum huga er það alveg ljóst að (Forseti hringir.) þessar upplýsingar sem fram hafa komið leiða mig til þeirrar niðurstöðu að við hefðum mátt vinna betur en raun ber vitni.