138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það tæki hann örugglega langan tíma að fara í gegnum þennan bunka af ýmsum ástæðum. En það sem við erum að tala um hér eru skjöl, 29 talsins, ég mun birta þann lista fyrir fjölmiðla og alla þannig að menn sjái hvaða gögn voru sett fram í málinu.

Skjöl frá nr. 23–29, sem hafa verið númeruð af nefndasviðinu, fjalla um skýrslur og samskipti í breska þinginu. Þarf ég að lesa það eftir að um það hefur verið sérstök utandagskrárumræða, eftir að birt hafa verið sérstök skjöl um það hér í þinginu í sumar hvernig rannsóknarnefnd breska þingsins vann málið og skilaði því af sér? Þarf ég að byrja á því upp á nýtt? Ég ætla ekki að biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson að fara að lesa þessi gögn upp á nýtt, ég geri ráð fyrir að hann hafi gert það í sumar.

Ég nefndi það áðan að skjöl frá nr. 13–21 eru álit Lovells, sem eru bakgögn fyrir við skjal sem lagt var fram hér í lok ársins og í byrjun ársins af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni. Það var rökstuðningurinn fyrir því að fara ekki í dómsmál (Forseti hringir.) út af hryðjuverkalögunum. Ætlum við að taka það mál upp að nýju í 3. umr. um Icesave, um lánasamninga sem gerðir voru löngu seinna? (Forseti hringir.) Svar mitt er nei.