138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir kannski ýmislegt um málið að hér kemur hv. þm. Guðbjartur Hannesson, augljóslega mjög þreyttur, og segist vera búinn að vinna sólarhringum saman og það á að keyra þetta mál hér í gegn. (Gripið fram í.) Menn eru hér misjafnlega mikið vansvefta að ræða þetta stærsta mál Íslandssögunnar.

Spurningin er og henni hefur ekki verið svarað: Er það rétt eða er það rangt að einn af embættismönnum íslensku þjóðarinnar hafi falið mikilvægar upplýsingar fyrir hæstv. utanríkisráðherra? Ætlar hv. formaður fjárlaganefndar að láta embættismenn íslensku þjóðarinnar komast upp með að segjast ekki ætla að mæta fyrir þingnefnd? Þetta er annað málið.

Síðan er hitt: Hvað var það sem hæstv. utanríkisráðherra sá? Fékk hann kynningu eða fékk hann ekki kynningu? Ef hann fékk kynningu, hvað var í henni? Á ekki að svara þessu, eiga þing og þjóð ekki að fá að vita þetta, virðulegi forseti?