138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér láðist að upplýsa um að það varð niðurstaðan hér í gærkvöldi að ég mundi óska eftir skriflegu áliti frá formanni samninganefndar, Svavari Gestssyni, í anda þess sem við báðum um frá Ingibjörgu Sólrúnu og Geir H. Haarde. Og í anda þess að þegar Mishcon de Reya óskaði eftir því að koma með svar við gagnrýni sem hafði komið á stofuna óskaði ég eftir því að það kæmi skriflega til fjárlaganefndar þannig að það færi þá formlega leið og kæmi til dreifingar þannig að menn þyrftu ekki að vera með orðhengilshátt um hvað sagt hefði verið á fundi. (Gripið fram í.) Því var mótmælt, það er rétt, en það var ákvörðun formanns að biðja um skriflegt álit og það varð niðurstaðan. Svavar Gestsson var ekki boðaður á fund, hann neitaði því ekki að mæta á fund. (Gripið fram í.) Hann taldi sig ekki þurfa að koma þangað og það var síðan mat mitt og á mína ábyrgð að hann var ekki kallaður fyrir nefndina. Ég ætla að biðja menn um að fara rétt með af því að hér er sannleikselskandi fólk.

Varðandi ójafnvægi mitt tengist það einfaldlega því að ég er ekki skaplaus maður. Ég geri kröfur og ætlast til að menn vinni vel að málum. Það er það sem ég hef verið að gera og ég ætla að vinna þjóðinni heilt (Forseti hringir.) og er búinn að ná niðurstöðu í því. En ég ætla ekki að hræra í þessu máli endalaust til að þóknast einhverjum hvötum annarra. (GÞÞ: Ætlarðu ekki að upplýsa þetta mál?) Það er búið að því.