138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðu sem mér fannst bæði vera góð og málefnaleg. Hv. þingmaður hefur allt aðra skoðun en ég á þessu máli en hann má eiga það að umfram mjög marga aðra flytur hann mál sitt án svigurmæla og hann færir fyrir þeim rök. Við getum svo deilt um þessi rök.

Hv. þingmaður telur að það sé nauðsynlegt að lengja þessa umræðu, þ.e. að fresta henni og taka frá tíma til þess að fjárlaganefnd geti farið í gegnum gögn sem borist hafa í dag (Gripið fram í.) — eru enn að berast honum, segir hv. þingmaður — og bárust í gær frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya. Hv. þingmaður telur að það kunni að vera eitthvað mikilvægt í þeim gögnum. Ég vil leyfa mér að hafa aðra skoðun á því og færa fyrir því rök.

Nýlega hefur þessi lögmannsstofa sent okkur skýrslu upp á 86 síður. Henni var falið að fara yfir mikilvægustu þætti málsins og það gerir hún. Hún gerir það á grundvelli þeirra gagna sem hún hefur yfir að ráða. Ég mundi því telja að lögmannsstofan hefði brugðist hlutverki sínu ef hún hefði sent frá sér skýrslu sem ekki byggðist á öllu því sem marktækt má telja. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að hún hafi þegar farið að í gegnum öll sín gögn, tekið úr þeim það sem mikilvægast er og það getum við lesið í þeirri skýrslu sem við höfum sennilega öll lesið á undanförnum dögum. Telur þá ekki hv. þingmaður að það sé a.m.k. rökrétt af mér að álykta að ef það væri eitthvað merkilegt í þessum nýju gögnum væri það þegar að finna í stóru skýrslunni sem kom hingað 22. desember?