138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar geta ekki staðið hér og látið eins og ekkert hafi í skorist. Hér er t.d. einn af þessum tölvupóstum sem hér er rætt um þar sem er verið að svara formanni samninganefndarinnar og þetta er dagsett 1. júlí klukkan níu.

Þar segir:

„Eftir heimsókn Össurar og fundi með John í London …“

Ég velti fyrir mér, úr því að hæstv. utanríkisráðherra hefur margoft sagt hér að hann kannist bara ekkert við þessa stofu, hvort það geti verið að þetta sé enn ein prentvillan sem komi frá þessari stofu. Það þarf að ganga úr skugga um það.

Frú forseti. Hér er ekki hægt að halda þessum fundi áfram með þessu lagi því að það eru enn að berast tölvupóstar, það eru enn að koma gögn. Það er verið að kalla okkur núna inn í þingflokksherbergi til þess að fara yfir gögn sem hafa borist. Ætlar Alþingi að halda hér þessum skrípaleik áfram meðan það á sér stað? (Gripið fram í.) Þetta er algjörlega til skammar og hv. varaformaður fjárlaganefndar ætti að sjá sóma sinn í því að leggja til að fundinum verði frestað þannig að þingmenn fái (Forseti hringir.) tíma til að fara yfir þau gögn sem berast.