138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég minntist áðan á tölvupóst sem ég tel að þurfi að varpa ljósi á og misræmi í því sem fram hefur hér komið og bið forseta að huga að því.

Hér er svarpóstur til formanns samninganefndarinnar þar sem segir:

„Eftir heimsókn Össurar …“ — Það er væntanlega hæstv. utanríkisráðherra.

Síðan er hér tölvupóstur frá 7. júlí sem er viku síðar þar sem segir:

„Kæri Össur. Ég vona að þér líði frábærlega vel.“

Hver segir svona lagað við mann sem hann hefur aldrei hitt eða hefur ekki hugmynd um hver er? „Exceedingly well“, frú forseti. Þetta er svolítið sérkennilegt. (Gripið fram í.) Já, þetta er gagnleg umræða, hv. þingmaður, í ljósi þess að því hefur verið hér neitað að ákveðinn atburður hafi átt sér stað, að fullyrðingar séu byggðar á misskilningi, að menn hafi ekki séð gögn og ýmislegt annað, hv. þingmaður. Þess vegna er nauðsynlegt að á þetta mál verði varpað því ljósi sem þarf og það er ekki verið að gera.